Starfsmannastefna

Almennt stefnumið

Lyfjastofnun stefnir að því að hafa á að skipa nægilegum fjölda starfsmanna til að takast á hendur þau fjölbreyttu verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lyfjalögum og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum. Til að svo megi verða skal tryggt að fólk sem hefur störf hjá stofnuninni hafi þá lágmarksmenntun og reynslu sem krafist er. Þá skulu starfsmenn, eftir því sem unnt er, fá tækifæri til að viða að sér viðbótarmenntun og reynslu sem nýtist þeim í starfi.

Lyfjastofnun vill laða að sér vel menntaða og metnaðarfulla starfsmenn og bjóða þeim góða aðstöðu til að þroskast í starfi.

Ábyrgð

Forstjóri Lyfjastofnunar ber ábyrgð á að starfsmannastefnu stofnunarinnar sé fylgt eftir og haldið við. Sviðsstjórar og deildarstjórar annast eftirlit með að stefnunni sé framfylgt, hver fyrir sína starfsmenn.

Jafnréttisstefna

Lyfjastofnun stefnir að því að jafnrétti meðal allra þjóðfélagsþegna sé virt og virkt, m.a. með því að jafnrétti karla og kvenna sé í samræmi við lög um jafnan rétt karla og kvenna og stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Þetta felur m.a. í sér að starfsfólki er ekki mismunað eftir kynferði, aldri, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, kynhneigð, efnahag, ætterni, fjölskyldutengslum eða stöðu að öðru leyti. Þetta á sérstaklega við um nýráðningar og breytingar á stöðu eða starfskjörum, þ.á m. launakjörum. Nánari útfærsla hefur verið sett fram í gæðaskjali um Jafnréttisstefnu.

Hlutleysi

Starfsmenn Lyfjastofnunar skulu gæta fyllsta hlutleysis í starfi sínu hjá Lyfjastofnun og mega ekki taka að sér aukastörf sem geta á einhvern hátt stefnt trúnaði viðkomandi gagnvart störfum þeirra hjá Lyfjastofnun í voða. Starfsmaður hjá Lyfjastofnun sem hyggst taka að sér aukavinnu skal fyrirfram upplýsa forstjóra um ætlan sína, ef líklegt má telja að aukastarfið samrýmist ekki störfum hans hjá Lyfjastofnun. Krafan um fyllsta hlutleysi í störfum gildir einnig um starfsmenn sem koma til starfa í stuttan tíma sem ráðgjafar, sérfræðingar eða starfsmenn sem ráðnir eru til afleysinga. Nánari útfærsla hefur verið sett fram í gæðaskjali um Siðareglur Lyfjastofnunar.

Vinnuumhverfi

Lyfjastofnun vill tryggja að vinnuumhverfi starfsmanna sé þægilegt og auki líkur á góðum starfsanda og úrlausn verkefna, s.s. öflugt og notendamiðað upplýsingakerfi, góð upplýsingamiðlun til starfsmanna, að samskipti milli starfsmanna allra sviða sé gott, góðar starfsreglur og siðareglur virtar, kjaramál séu í góðu lagi, svo og heilsa og öryggi starfsmanna. Lyfjastofnun leggur auk þess fé til líkamsræktar og starfsmannafélags í sama augnamiði. Starfsánægja, góður starfsandi og vellíðan starfsmanna skal tryggð eftir föngum og starfsmenn hvattir til að koma að athugasemdum um þessa þætti.

Viðhorfskönnun skal gerð reglulega meðal starfsmanna og niðurstöður birtar starfsmönnum og nýttar af yfirstjórn sem tækifæri til úrbóta.

Samræming fjölskyldulífs og atvinnu

Lyfjastofnun leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt fjölskyldulíf sitt og atvinnu. Til þess að svo megi verða geta starfsmenn óskað eftir því við sinn yfirmann að vinnutími verði sveigður að þörfum starfsmanns. Óskir um sveigjanlegri vinnutíma eru metnar með tilliti til viðkomandi starfs og þarfa Lyfjastofnunar, sbr. gæðaskjal um Jafnréttisstefnu.

Starfsþjálfun og endurmenntun

Til að tryggja að stofnunin sé á hverjum tíma sem best í stakk búin að takast á við þau verkefni sem henni eru falin er lögð áhersla á markvissa fræðslu og þjálfun starfsmanna, m.a. með símenntun og endurmenntun. Slík þörf er metin árlega, einkum í framhaldi af starfsmannaviðtölum, sbr. gæðaskjal um Jafnréttisstefnu.

Einelti

Einelti er ekki liðið innan stofnunarinnar. Komi upp slík tilvik skulu þau meðhöndluð og leyst á formlegan hátt.

Einelti

Með einelti er átt við ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, sem til þess er fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.

Dæmi um ótilhlýðilega háttsemi er:

  • eftirlit með starfsmönnum án vitundar þeirra
  • niðurlægjandi „refsiaðgerðir“ sem fyrirvaralaust beinast gegn ákveðnum starfsmanni eða starfsmönnum án málefnalegra ástæðna eða útskýringa og án tilrauna til að leysa hugsanlegar undirliggjandi ástæður. Refsiaðgerðirnar geta t.d. komið fram í því að að verkefni eru tekin frá starfsmanni án rökstuðnings, óútskýrðum tilfærslum í starfi, breyttum kjörum, vinnutengdum upplýsingum sem haldið er frá starfsmanni o.fl.
  • þegar meðvitað er komið í veg fyrir að starfsmaður geti sinnt verkefnum sínum
  • útilokun, einangrun, skeytingarleysi, þöggun
  • starfsmaður er niðurlægður, gagnrýndur, hæddur og svívirtur
  • baktal og niðrandi ummæli viðhöfð um starfsmann
  • ofsóknir og hótanir í garð starfsmanns

Brýnt er að gripið sé inn í sem fyrst svo ágreiningsatriðum fjölgi ekki eða verði alvarleg. Ekki er mest um vert að finna sökudólga, heldur viðurkenna vandamálin og leita uppbyggilegra leiða til úrbóta.