Lyfjaskortur

Fréttir varðandi lyfjaskort

Mjög mikilvægt er að læknar geri sér grein fyrir að Lyfjastofnun metur ekki undanþágulyf (óskráð lyf) og upplýsingar um þau er ekki að finna á vefsíðu Lyfjastofnunar, hvorki upplýsingar til heilbrigðisstarfsmanna né sjúklinga og íslenskur fylgiseðill er ekki í pakkningum lyfjanna. Þetta á við hvort sem lyfin er að finna í rafrænni undanþágulyfjaverðskrá eða ekki. Upplýsingagjöf læknis til sjúklings er því mjög mikilvæg þegar verið er að ávísa undanþágulyfjum.

Exemestan Actavis

18. september 2018: Til sjúklinga

Lyfið Exemestan Actavis 25 mg töflur (samheitalyf) hefur verið ófáanlegt í heildsölu síðan 15. maí sl. Aromasin 25 mg töflur (frumlyfið) sem inniheldur sama virka efni er til í heildsölu. Aromasin er með greiðsluþátttöku og fellur undir greiðsluþrep samkvæmt reglum Sjúkratrygginga Íslands. Von er á Exemestan Actavis 1. október nk.

Ef samheitalyfið fer á bið þá eykst greiðsluhluti Sjúkratrygginga Íslands og verð frumlyfsins verður viðmiðunarverð. 


Folic Acid

14.september 2018: Til lækna

Skráða lyfið Folic Acid 5 mg töflur 28 stk. er ófáanlegt í heildsölu en óskráð lyf, Folsaure 5 mg töflur er fáanlegt og hefur verið birt í rafrænni undanþágulyfjaverðskrá. Því er hægt að ávísa lyfinu rafrænt. Einnig geta þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænu undanþágulyfjakerfi ávísað lyfinu með undanþágulyfseðli á pappír. Ekki liggur fyrir hvenær skráða lyfið verður fáanlegt aftur.

Cardosin Retard og Carduran Retard


13. september 2018: Til lækna

Skráðu lyfin Cardosin Retard 4 mg forðatöflur og Carduran Retard 4 mg forðatöflur eru ófáanleg í heildsölu. 

Óskráða lyfið Doxazosin 4 mg töflur er fáanlegt og hefur verið birt í rafrænni undanþáguverðskrá og er því hægt að ávísa lyfinu rafrænt. Vakin er athygli á því að um er að ræða annað lyfjaform, töflur en ekki forðatöflur. Lyfjahvörf lyfjaformanna eru ólík, t.d. er frásog af töflunum meira og ójafnara (toppar) en af skráðu forðatöflunum. Lyfjastofnun vill því benda læknum á upplýsingar um frásog í kafla 5.2 í samantekt á eiginleikum (SmPC) skráðu lyfjanna Carduran Retard og Cardosin Retard þar sem þau eru borin saman við venjulegar töflur.

Þeir læknar sem ekki hafa aðgang að rafrænu undanþágulyfjakerfi geta ávísað lyfinu með undanþágulyfseðli á pappír.

Lyfjastofnun minnir á að almennt gildir að óskráðum lyfjum fylgja engar upplýsingar eða áletranir á íslensku og upplýsingagjöf lækna til sjúklinga er því enn mikilvægari en venjulega.

Colrefuz

24. ágúst 2018: Til lækna

Skráða lyfið Colrefuz 500 míkróg. töflur er ófáanlegt hjá heildsölu en óskráð lyf Colchicine 500 míkróg. töflur er nú fáanlegt og hefur verið birt í rafrænni undanþáguverðskrá. Því er hægt að ávísa lyfinu rafrænt. Einnig geta þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænu undanþágulyfjakerfi ávísað lyfinu með undanþágulyfseðli á pappír. Ekki liggur fyrir hvenær skráða lyfið verður fáanlegt aftur.

Lyfjastofnun minnir á að almennt gildir að óskráðum lyfjum fylgja engar upplýsingar eða áletranir á íslensku og upplýsingagjöf lækna til sjúklinga er því enn mikilvægari en venjulega.


Quinine Sulfate Actavis

10. júlí 2018: Til lækna:

Quinine Sulfate Actavis 200 mg töflur, 28 stk. sem hefur  verið  ófáanlegt síðan í febrúar er nú komið aftur í sölu. Lyfið var fellt úr lyfjaverðskrá vegna birgðaskorts en mun birtast aftur í næstu útgáfu þann 1. ágúst. Lyfjagreiðslunefnd hefur heimilað sölu pakkningarinnar strax en ekki verður hægt að ávísa lyfinu rafrænt fyrr en 1. ágúst.


Co-trimoxazole

9.júlí 2018: Til lækna

Skráða lyfið Co-trimoxazole er ófáanlegt hjá heildsölu en óskráð lyf, Co-Trimoxazole 480 mg töflur, 28 stk. er nú fáanlegt og hefur verið birt í rafrænni undanþáguverðskrá. Því er hægt að ávísa lyfinu rafrænt. Einnig geta þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænu undanþágulyfjakerfi ávísað lyfinu með undanþágulyfseðli á pappír. Ekki liggur fyrir hvenær skráða lyfið verður fáanlegt aftur.

Lyfjastofnun minnir á að almennt gildir að óskráðum lyfjum fylgja engar upplýsingar eða áletranir á íslensku og upplýsingagjöf lækna til sjúklinga er því enn mikilvægari en venjulega.

  

Testogel

9.júlí 2018: Til lækna:

Testogel hlaup 50 mg í skammtapoka hefur verið ófáanlegt um nokkra hríð en óskráða lyfið Tostrex er nú fáanlegt á ný og er hægt að ávísa því rafrænt. Einnig geta þeir sem ekki hafa aðgang að rafrænu undanþágulyfjakerfi ávísað lyfinu með undanþágulyfseðli á pappír. Ekki liggur fyrir hvenær skráða lyfið verður fáanlegt aftur.

Lyfjastofnun minnir á að almennt gildir að óskráðum lyfjum fylgja engar upplýsingar eða áletranir á íslensku og upplýsingagjöf lækna til sjúklinga er því enn mikilvægari en venjulega.

Typhim Vi

11.júní 2018 - Undanþága: veitt heimild til sölu í sænsk-finnskum pakkningum

Til að koma í veg fyrir skort hefur Lyfjastofnun veitt heimild til sölu 2000 pakkninga lyfsins Typhim Vi í sænsk-finnskum pakkningum. Þær eru með öðru norrænu vörunúmeri en er að finna í lyfjaskrám. Norrænt vörunúmer á sænsk-finnskum pakkningum er Vnr 18 18 62, en Vnr 02 83 14 er í lyfjaskrám.

Um eftirtalda pakkningu er að ræða:

  • Vnr 02 83 14 - Typhim Vi - 25 míkróg/0,5 ml - stungulyf, lausn – áfyllt sprauta


Testogel

22.maí 2018 - Til lækna:

Testogel hlaup 50 mg í skammtapoka hefur verið ófáanlegt undanfarið en hægt hefur verið að ávísa óskráðu Testogel og Tostran hlaupi á undanþágulyfseðli. Þessi lyf eru nú einnig ófáanleg en hægt er að ávísa Tostrex hlaupi 2% 60 mg á undanþágulyfseðli. Það verður þó ekki hægt að ávísa því á rafrænum undanþágulyfseðli fyrr en 1.júní þegar ný undanþágulyfjaverðskrá verður gefin út. Lyfjastofnun minnir á að almennt gildir að óskráðum lyfjum fylgja engar upplýsingar eða áletranir á íslensku og upplýsingagjöf lækna til sjúklinga er því enn mikilvægari en venjulega.

Furadantin

18.maí 2018 - Til lækna:

Furadantin 50 mg töflur í 15 stykkja pakkningum sem hefur verið ófáanlegt er nú komið í sölu. Lyfið var fellt úr lyfjaverðskrá vegna birgðaskorts og kemur ekki aftur inn í hana fyrr en við næstu útgáfu 1. júní.  Lyfjagreiðslunefnd hefur heimilað sölu pakkningarinnar strax en ekki er hægt að ávísa henni með rafrænum hætti fyrr en 1. júní.

 

Nystimex

16.maí 2018 - Til lækna:

Skráða lyfið Nystimex (nýstatín), sem hefur verið ófáanlegt er nú komið í sölu. Nota skal venjulegan lyfseðil til að ávísa lyfinu. 


Twinrix og Havrix

24.apríl 2018  

Skortur er á bóluefnunum Havrix og Twinrix sem gefin eru til varnar lifrarbólgu A annars vegar, og lifrarbólgu A og B hins vegar.  Ástæðan er framleiðsluvandi og því er um skort á heimsvísu að ræða.

Lyfjastofnun hefur unnið að því undanfarið að finna lausn á vandanum í samstarfi við umboðsaðila og innflytjanda. 

Bóluefnið Havrix, er ekki fáanlegt hér á landi. Hins vegar er fáanlegt annað bóluefni í sama lyfjaflokki sem er ekki á markaði á Íslandi, Vaqta, en hægt er að afgreiða það sem undanþágulyf með rafrænum og skjótvirkum hætti. Af því komu 200 skammtar til landsins í byrjun vikunnar og 100 skammtar eru væntanlegir í næstu viku.

Bóluefnið Twinrix er einnig ófáanlegt tímabundið hérlendis. Twinrix, eins og Havrix, er framleitt í tvenns konar styrkleika, annars vegar fyrir börn, hins vegar fyrir fullorðna. Samkvæmt upplýsingum frá innflytjanda er Twinrix fyrir fullorðna ekki væntanlegt fyrr en í október næstkomandi, en Twinrix fyrir börn verður hægt að fá í byrjun næstu viku. Þá ættu 680 skammtar þess bóluefnis að vera komnir til landsins.

Vegna valsartan innköllunar

30.júlí 2018 - Vegna valsartan innköllunar

Eins og fram hefur komið hefur evrópska lyfjastofnunin EMA, ásamt öðrum alþjóðlegum lyfjayfirvöldum, ráðlagt innköllun á ákveðnum lyfjum sem innihalda blóðþrýstingslyfið valsartan. Innköllunin varðar eftirfarandi lyf hérlendis sem innihalda valsartan vegna mögulegrar mengunar af völdum N-nitrosodimethylamine (NDMA) við framleiðslu á lyfinu hjá kínverska lyfjaframleiðandanum, Xheijang Huahai Pharmaceuticals. Við fyrstu skoðun virðist NDMA mengunin mögulega eiga rætur sínar að rekja til breytinga sem gerðar voru á framleiðsluferlinu á valsartan árið 2012.

NDMA er af flokki nítrata sem geta myndast við ýmis efnahvörf í iðnaði, sérstaklega matvælaiðnaði, en einnig við bruna tóbaks og matreiðslu kjötmetis. NDMA finnst að jafnaði í mjög litlu magni í ýmsum unnum kjötvörum. Langvarandi inntaka á því er talin, á grundvelli rannsókna í dýrum, líkleg til að geta valdið ýmsum sjúkdómum í mönnum, m.a. krabbameini í lifur, nýrum og lungum.

Innköllunin á umræddum valsartan lyfjum er varúðarráðstöfun á meðan beðið er eftir niðurstöðum frekari mælinga lyfjayfirvalda. Frummælingar benda til þess að styrkur mengunarvaldsins NDMA hafi verið svolítið breytilegur en almennt lágur. Áhættan er talin samræmast því að neyta reykts eða steikts kjötmetis reglulega en áhættan er talin vera minni en að reykja tóbak að staðaldri.

Lyfja- og heilbrigðisyfirvöld taka því mjög alvarlega ef lyf reynast menguð. Í framhaldi frumathugunar og mats á mögulegum heilbrigðisskaða, munu yfirvöld skoða allt framleiðsluferlið og hvar lyfjaeftirlit hefði betur mátt fara.

Helgi Hafsteinn Helgason

Sérfræðingur í lyflækningum og lyflækningum krabbameina og klínískur lyfjafræðingur

26. júlí 2018 - Til lækna og apóteka - tímabundin undanþága fyrir lyf sem innihalda valsartan

Til þess að bregðast við skorti á lyfjum sem innihalda valsartan vegna nýlegrar innköllunar hefur Lyfjastofnun, að höfðu samráði við lyfjagreiðslunefnd, veitt tímabundna heimild til sölu neðangreindra lyfja sem eru ekki á lista Lyfjastofnunar Evrópu yfir innkölluð lyf. Um er að ræða eftirtaldar pakkningar:

Valsartan

  • Vnr 13 50 62 - Valsartan Krka - 80 mg - filmuhúðuð tafla – 98 stk.
  • Vnr 13 50 84 - Valsartan Krka - 160 mg - filmuhúðuð tafla – 98 stk.


Valsartan í blöndum

  • Vnr 37 51 53 - Valsartan/Hydrochlorothiazide Krka - 80 mg/12,5 mg - filmuhúðuð tafla - 98 stk.
  • Vnr 41 26 62 - Valsartan/Hydrochlorothiazide Krka - 160mg/12,5 mg -filmuhúðuð tafla - 98 stk.
  • Vnr 46 28 49 - Valsartan/Hydrochlorothiazide Krka - 160mg/25 mg - filmuhúðuð tafla - 98 stk.


Ekki verður hægt að ávísa lyfjunum rafrænt fyrr en ný lyfjaverðskrá tekur gildi 1.ágúst nk. Fram að þeim tíma þarf annað hvort að ávísa þeim í síma eða með pappírslyfseðli. Apótek hafa heimild við afgreiðslu lyfseðla að skipta ofangreindum lyfjum út fyrir önnur lyf í sama viðmiðunarflokki.

Heimildin gildir til 1.ágúst 2018 en þá munu upplýsingar um lyfin birtast í lyfjaskrám og hægt verður að ávísa þeim rafrænt.

5. júlí 2018 - Til lækna: Vegna innköllunar á valsartan fá sjúklingar neðangreind lyf ekki afgreidd úr apótekum frá og með 5. júlí 2018. Verið er að vinna í að auka birgðir af háþrýstingslyfjum sem mögulegt er að ávísa í stað innkallaðra valsartan lyfja.

Læknar þurfa að ganga úr skugga um að lyfið sem ávísað er í stað valsartan sé fáanlegt í apóteki til þess að forðast meðferðarrof og aukið álag.

Listi yfir valsartan lyf sem innköllunin nær til (pdf)

Upplýsingar til sjúklinga vegna valsartan innköllunar 


Spurt og svarað um lyfjaskort

Grein um ástæður lyfjaskorts og möguleg úrræði

Biðlistar lyfja

Lyf sem eru á markaði en af einhverjum orsökum eru ekki til hjá lyfjaheildverslunum, tímabundið, eru birt á biðlistum fyrirtækjanna. Einnig birta Sjúkratryggingar Íslands sameiginlegan biðlista allra lyfjaheildverslana en þó ekki með öllum upplýsingum sem koma fram á biðlistum þeirra.

Undanþágulyf

Læknir getur sótt um leyfi til Lyfjastofnunar til að nota undanþágulyf (óskráð lyf) fyrir sjúkling sinn þegar ekki er hægt að nota önnur lyf sem markaðssett eru á Íslandi t.d. þegar markaðssett lyf er ófáanlegt tímabundið. Þegar slíkt leyfi er veitt er lyfið notað á ábyrgð læknisins. Mjög mikilvægt er að læknar geri sér grein fyrir að Lyfjastofnun metur ekki undanþágulyf og upplýsingar um þau er ekki að finna á vefsíðu Lyfjastofnunar hvorki upplýsingar til heilbrigðisstarfsmanna né sjúklinga og íslenskur fylgiseðill er ekki í pakkningum lyfsins. Þetta á við hvort sem lyfið er að finna í rafrænni undanþágulyfjaverðskrá eða ekki.

Hægt er að senda rafræna undanþágubeiðni vegna þeirra lyfja sem er að finna í rafrænni undanþágulyfjaverðskrá Lyfjagreiðslunefndar (athugið að velja viðeigandi ár og undanþáguverðskrána fyrir viðeigandi mánuð). -Lyf sem ekki eru í rafrænni undanþágulyfjaverðskrá verður að sækja um á pappír. Þetta gildir t.d. þegar sótt er um ákveðið lyf í fyrsta skipti.


Spurt og svarað um undanþágulyf

Uppfært 13.9.2018

Var efnið hjálplegt? Nei