Lyfjum skilað í apótek til eyðingar
Afgangslyf mega ekki fara í ruslið, vask eða klósett. Þeim ber að skila í apótek til eyðingar.
Reykjavíkurborg, Veitur og Lyfjastofnun efna til átaksviku undir heitinu Lyfjaskil - fyrir þig og umhverfið dagana 28. janúar til 3. febrúar. Lyf geta valdið skaða á umhverfinu og mega aldrei fara í rusl, vask eða klósett. Sum lyf hafa neikvæð áhrif á lífríki ef þau komast út í náttúruna. Lyfjum skal því skila í apótek til eyðingar.
Átaksvikuna verður almenningur hvattur á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum til að skila óþörfum og gömlum lyfjum í apótek. Í apótekum á höfuðborgarsvæðinu verður hægt fá lyfjaskilapoka. Þeir eru gagnsæir og í þá skal setja afgangslyf sem síðan er skilað til eyðingar í apótek. Pokarnir eru úr efni sem brotnar niður. Einnig er hægt að skila lyfjum í öðrum gegnsæjum pokum.
Flokkun lyfja og umbúða þeirra
Lyf sem ekki er lengur þörf fyrir og umbúðir sem hafa komist í snertingu við lyfin skal skila í glærum poka í apótek. Afhendið starfsfólki apóteksins pokann og það sér um að koma lyfjunum í örugga eyðingu.
Ytri umbúðir lyfjanna má fjarlægja og flokka eins og annan úrgang. Sem dæmi fylgja oft plast- og pappírsefni lyfjunum sem hægt er skila í endurvinnslutunnur við heimili og á grenndar- og endurvinnslustöðvar.
Sprautunálum skal skilað í apótek í lokuðum ílátum.
Nánari leiðbeiningar um flokkun lyfja og umbúða þeirra er að finna í myndbandinu hér að neðan.
Lyf í umhverfinu
Lyf finnast bæði í blönduðum úrgangi frá heimilum og í skólpi á Íslandi.* Ef lyf fara með blönduðum úrgangi í gráu tunnuna á höfuðborgarsvæðinu fara þau til urðunar í Álfsnesi. Þaðan geta þau með tíma borist út í umhverfið. Lyf sem fara í vask eða klósett enda eins og annað skólp í hafinu. Sýnt hefur verið fram á að ýmis lyf geta haft skaðleg áhrif á lífríki og vistkerfi.
*Húsasorpsrannsókn SORPU 2012-2016.