Til að svo megi verða skal tryggt að fólk sem hefur störf hjá stofnuninni hafi þá menntun og reynslu sem krafist er. Þá skulu starfsmenn, eftir því sem unnt er, fá tækifæri til að afla sér viðbótarmenntunar og reynslu sem nýtist þeim í starfi
Lyfjastofnun vill laða að sér vel menntaða og metnaðarfulla starfsmenn og bjóða þeim góða aðstöðu til að þroskast í starfi.
Ábyrgð
Forstjóri Lyfjastofnunar ber ábyrgð á að starfsmannastefnu stofnunarinnar sé fylgt eftir og haldið við. Sviðsstjórar og deildarstjórar/teymisstjórar annast eftirlit með að stefnunni sé framfylgt, hver fyrir sína starfsmenn.
Jafnréttisstefna
Lyfjastofnun stefnir að því að jafnrétti meðal allra þjóðfélagsþegna sé virt og virkt, m.a. með því að jafnrétti karla og kvenna sé í samræmi við lög um jafnan rétt karla og kvenna og stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Þetta felur m.a. í sér að starfsfólki er ekki mismunað eftir kynferði, aldri, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, kynhneigð, efnahag, ætterni, fjölskyldutengslum eða stöðu að öðru leyti. Þetta á sérstaklega við um nýráðningar og breytingar á stöðu eða starfskjörum, þ.á m. launakjörum. Nánari útfærsla hefur verið sett fram í gæðaskjali um Jafnréttisáætlun.
Hlutleysi
Starfsmenn Lyfjastofnunar skulu gæta fyllsta hlutleysis í starfi sínu hjá Lyfjastofnun og mega ekki taka að sér aukastörf sem geta á einhvern hátt stefnt trúnaði viðkomandi gagnvart störfum þeirra hjá Lyfjastofnun í voða.
Starfsmaður hjá Lyfjastofnun sem hyggst, samhliða starfi sínu, taka að sér launað starf, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar skal fyrirfram upplýsa forstjóra um ætlan sína. Þá mega starfsmenn ekki eiga persónulegra hagsmuna að gæta í framleiðslu, innflutningi eða dreifingu lyfja.
Krafan um fyllsta hlutleysi í störfum gildir einnig um starfsmenn sem koma til starfa í stuttan tíma sem ráðgjafar, sérfræðingar eða starfsmenn sem ráðnir eru til afleysinga.
Nánari útfærsla hefur verið sett fram í gæðaskjali um Siðareglur Lyfjastofnunar.
Vinnuumhverfi
Lyfjastofnun vill tryggja að vinnuumhverfi starfsmanna sé þægilegt og auki líkur á góðum starfsanda og úrlausn verkefna, s.s. öflugt og notendamiðað upplýsingakerfi, góð upplýsingamiðlun til starfsmanna, að samskipti milli starfsmanna allra sviða sé gott, góðar starfsreglur og siðareglur virtar, kjaramál séu í góðu lagi, svo og heilsa og öryggi starfsmanna. Lyfjastofnun leggur auk þess fé til líkamsræktar og starfsmannafélags í sama augnamiði.
Starfsánægja, góður starfsandi og vellíðan starfsmanna skal tryggð eftir föngum og starfsmenn hvattir til að koma að athugasemdum um þessa þætti.
Viðhorfskönnun skal gerð reglulega meðal starfsmanna og niðurstöður birtar starfsmönnum og nýttar af yfirstjórn sem tækifæri til úrbóta.
Samræming fjölskyldulífs og atvinnu
Lyfjastofnun leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt fjölskyldulíf sitt og atvinnu. Til þess að svo megi verða geta starfsmenn óskað eftir því við sinn yfirmann að vinnutími verði sveigður að þörfum starfsmanns. Óskir um sveigjanlegri vinnutíma eru metnar með tilliti til viðkomandi starfs og þarfa Lyfjastofnunar, sbr. gæðaskjal um Jafnréttisstefnu.
Starfsþjálfun og endurmenntun
Til að tryggja að stofnunin sé á hverjum tíma sem best í stakk búin að takast á við þau verkefni sem henni eru falin er lögð áhersla á markvissa fræðslu og þjálfun starfsmanna, m.a. með símenntun og endurmenntun. Slík þörf er metin árlega, einkum í framhaldi af starfsmannaviðtölum, sbr. gæðaskjal um Starfsþjálfunar- og endurmenntunarstefnu.
Einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi
Einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi er ekki liðin innan stofnunarinnar. Komi upp slík tilvik skulu þau meðhöndluð og leyst á formlegan hátt, sbr. gæðaskjal um Einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi .
