Siðareglur

Markmið siðaregla er að tryggja að starfsmenn Lyfjastofnunar sýni rétta breytni í störfum sínum fyrir Lyfjastofnun innan og utan stofnunar. Siðareglurnar eru lagðar til grundvallar fyrir starfsemi Lyfjastofnunar, í samskiptum við almenning og viðskiptavini. Reglurnar gilda fyrir alla starfsmenn Lyfjastofnunar.

Ábyrgð

Forstjóri Lyfjastofnunar ber ábyrgð á að siðareglum Lyfjastofnunar sé fylgt eftir og þeim haldið við. Sviðs/-deildarstjórar viðkomandi sviða/deilda annast eftirlit með að reglunum sé framfylgt, hver fyrir sína starfsmenn.

Skýring

Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins veita almennar leiðbeiningar um skyldur starfsmanna, þar á meðal hvað varðar breytni þeirra. Þar segir m.a. í 14. grein laganna: „…Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að aðhafast nokkuð það í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við. Starfsmanni er skylt að veita þeim sem til hans leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, þar á meðal að benda þeim á það ef svo ber undir, hvert þeir skuli leita með erindi sín …“. Stjórnsýslulög setja líka ákveðnar kvaðir á starfsmenn um rétta breytni í starfi.

Lyfjastofnun hefur sett sér starfsmannastefnu og gildi, sem stofnunin vill hafa hliðsjón af í starfsemi sinni, þá menningu sem stofnunin vill rækta meðal starfsmanna og vera þekkt af gagnvart viðskiptavinum stofnunarinnar. Þau gildi eru helst þessi: Gæði, traust og þjónusta.

Gæði

Þegar starfsmaður tekur ákvörðun, skal hann gæta þess að samræmi sé í þeirri ákvörðun sem hann tekur og því markmiði sem sóst er eftir og gæta meðalhófs sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Einkum skal forðast að takmarka rétt viðskiptavina þegar fyrirhugaðar aðgerðir eru ekki í skynsamlegum tengslum við tilgang aðgerðanna. Hafa ber í huga sanngjarnt jafnvægi milli hagsmuna einstaklinga og almennings.

Starfsmaður skal í hvívetna hafa í huga lögbundið hlutverk stofnunarinnar og forðast að beita þeim aðferðum og valdi sem hvorki er að finna í lyfjalögum eða reglugerðum, né þjónar hagsmunum viðskiptavina stofnunarinnar.

Starfsmaður skal viðhalda þekkingu sinni og færni til að tryggja að afgreiðsla hans á hverjum tíma sé af háum gæðum. Nákvæmni, góður frágangur og örugg afgreiðsla erinda, þar sem gæðum er ekki fórnað eiga að vera keppikefli starfsmannsins.

Traust

Starfsmaður skal vera hlutlaus og óháður þeim viðskiptavinum sem hann þjónar. Viðskiptavinir eiga að geta treyst því að ekki séu teknar geðþóttaákvarðanir varðandi þá og öðrum sé ekki ívilnað. Hvorki persónulegir né pólitískir hagsmunir starfsmanns skulu hindra eðlilega og sanngjarna afgreiðslu máls. Starfsmaður skal forðast að taka ákvörðun í málum þar sem pólitískir eða persónulegir hagsmunir hans gætu rekist á við vandaða og trausta umfjöllun og afgreiðslu.

Starfsmaður skal ekki þiggja óhóflegar gjafir í starfi sínu, sbr. nánari ákvæði í gæðaskjali um Gjafir og boð til starfsmanna.

Löggjafinn, ráðuneyti, samstarfsaðilar, almenningur og aðrir viðskiptavinir Lyfjastofnunar eiga að geta treyst því að Lyfjastofnun vinni á traustan og trúverðugan hátt. Vönduð vinnubrögð, þar sem til staðar er sérfræðiþekking, gott skipulag og ábyrg afstaða eiga að vera aðall stofnunarinnar.

Starfsmaður skal leitast við að vera sjálfum sér samkvæmur í ákvörðunum við afgreiðslu erinda frá almenningi og öðrum viðskiptavinum stofnunarinnar og gæta þess að þær séu sanngjarnar og skynsamlegar. Hann skal einnig gæta réttmætra væntinga viðskiptavina stofnunarinnar. Öllum skal sinnt á grundvelli jafnræðis, þannig að viðskiptavinir í sams konar aðstöðu fái sambærilega afgreiðslu. Ef aðilum er samt sem áður mismunað af einhverjum orsökum, skal það leiðrétt eins fljótt og kostur er. Starfsmaður skal sérstaklega gæta þess að mismuna ekki viðskiptavinum stofnunarinnar á grundvelli þjóðernis, kyns, uppruna, trúar, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar. Þegar ákvörðun er tekin í máli skal sú ákvörðun vera skýr og gagnsæ, jafnframt því sem tekið er tillit til mikilvægra þátta en ómarkverðir þættir útilokaðir.

Þjónusta

Starfsmaður skal sýna lipurð og kurteisi í samskiptum sínum við viðskiptavini stofnunarinnar. Jákvætt viðmót, þar sem tímamörk standast og staðið er við loforð skulu vera aðalsmerki starfsmannsins.

Starfsmaður skal kynna sér vel þau lög, reglur og viðmið sem eiga við starfsemi stofnunarinnar. Öll erindi skulu skráð skilmerkilega, og þeim erindum sem sannanlega eru utan verksviðs Lyfjastofnunar skal vísað á réttan stað.

Tilvísanir

Lyfjalög nr. 100/2020, lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Síðast uppfært: 14. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat