Alþjóðlegt átak hvatning til að tilkynna aukaverkanir lyfja

Dagana 25.-29. nóvember stendur yfir alþjóðlegt átak þar sem lyfjayfirvöld víða um heim vekja athygli á mikilvægi þess að tilkynna aukaverkanir sem fylgt geta notkun lyfja. Þetta er í fjórða sinn sem efnt er til átaks af þessu tagi og hefur Lyfjastofnun verið með frá upphafi. Þátttaka nú er meiri en nokkru sinni, alls taka 57 lönd þátt í átakinu. Megináhersla er að þessu sinni lögð á fjöllyfjanotkun.

Fjöllyfjanotkun

Fjöllyfjanotkun kallast það þegar fjögur lyf eða fleiri eru tekin samtímis, hvort heldur eru lausasölulyf eða lyf sem hefur verið ávísað. Fjöllyfjanotkun eykur líkur á aukaverkunum þar sem meiri hætta er á milliverkunum lyfjanna, eða milli lyfja og fæðu. Með hærri aldri aukast líkur á að tekin séu mörg lyf samtímis, og rannsóknir erlendis sýna að þriðjungur fólks 75 ára og eldri tekur a.m.k. sex lyf. 

Mikilvægar upplýsingar um verkun og öryggi lyfja 

Aukaverkanatilkynningar veita miklivægar upplýsingar um verkun og öryggi lyfja, og tilkynningarnar geta leitt til endurmats lyfs og notkunar þess. Guðrún Stefánsdóttir, helsti sérfræðingur Lyfjastofnunar í lyfjagát, segir ýmsar upplýsingar koma fram í aukaverkanatilkynningum. „Oft eru þessar tilkynningar fyrsta vísbendingin um aukaverkun sem tengist lyfinu. Og þarna fáum við inn mjög góðar upplýsingar um hvaða lyf var notað, og hvort sjúklingur hafi tekið annað lyf.“ Hún segir enn fremur að ánægjulegt sé að tilkynningum frá almenningi hafi fjölgað, það skipti miklu varðandi þá vinnu sem tengist því að meta öryggi lyfjanna.

Að tilkynna aukaverkun – nóg að grunur sé til staðar

Á forsíðu vefs Lyfjastofnunar er hnappur merktur „Aukaverkanir – tilkynna“ og þegar smellt er á hann leiðir hann að vefeyðublöðum (öðru fyrir menn og hinu fyrir dýr) þar sem finna má skýringar um hvaða upplýsingar eru nauðsynlegar. Nóg er að grunur sé um að tilteknu lyfi eða tilteknum lyfjum fylgi aukaverkun, sérfræðingar Lyfjastofnunar og annarra lyfjastofnana í Evrópu meta hvort um orsakasamband geti verið að ræða. 

Fullur trúnaður er varðandi meðferð upplýsinga sem fram koma í tilkynningum um aukaverkanir og einungis örfáir starfsmenn Lyfjastofnunar vinna með þessar upplýsingar og hafa aðgang að þeim. 

 

Nr4-Facebook-card

Síðast uppfært: 25. nóvember 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat