COVID-19: Klórókín og hýdroxýklórókín (Plaquenil) notist eingöngu í klínískum rannsóknum og sem neyðarúrræði

Lyfin klórókín og hýdroxýklórókín (Plaquenil) eru notuð til forvarnar og meðferðar við malaríu sem og við ákveðnum sjálfsofnæmissjúkdómum. Rannsóknir á lyfjunum sem meðferð við COVID-19 eru nú í gangi víða um heim. Enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á virkni lyfjanna gegn COVID-19 í neinni rannsókn. 

Sérlega mikilvægt er að sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn noti klórókín og hýdroxýklórókín eingöngu:

  1. í samræmi við samþykktar ábendingar lyfjanna,
  2. í klínískum rannsóknum eða
  3. sem neyðarúrræði við COVID-19 samkvæmt samþykktu verklagi í viðkomandi landi

Umrædd lyf geta haft í för með sér alvarlegar aukaverkanir, sérstaklega ef þau eru tekin í háum skömmtum eða með öðrum lyfjum. Lyfin skyldi aldrei nota nema að læknir hafi ávísað þeim og fylgi meðferðinni eftir.

Stórar klínískar rannsóknir á lyfjunum eru í gangi og munu þær vonandi skila nauðsynlegum upplýsingum til að hægt að sé meta með óyggjandi hætti hvort lyfin séu virk og örugg til meðferðar við COVID-19.

Þar sem baráttan við COVID-19 er erfið og álag á heilbrigðiskerfi mikið, hafa sum lönd heimilað notkun lyfjanna tveggja í tilraunaskyni að uppfylltum ströngum skilyrðum, t.a.m. hjá sjúklingum með alvarlegan COVID-19 sjúkdóm.

Klórókín og hýdroxýklórókín eru lífsnauðsynleg lyf fyrir sjúklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma eins og rauða úlfa. Brýnt er að þeir sjúklingar geti fengið lyfin áfram og lendi ekki í skorti á þeim vegna tilraunakenndrar notkunar við COVID-19. Þess vegna hafa sum lönd brugðið á það ráð að takmarka aðgengi að lyfjunum, líkt og gert hefur verið hérlendis með lyfið Plaquenil.

Upplýsingar fyrir sjúklinga:

  • Sjúklingar skulu eingöngu nota klórókín eða hýdroxýklórókín (Plaquenil) hafi lyfjunum verið ávísað á þá og meðferðinni sé í kjölfarið fylgt eftir af lækni.
  • Sjúklingar eru hvattir til að spyrja lækni eða lyfjafræðing ef þeir hafa einhverjar spurningar um meðferð með umræddum lyfjum eða öðrum lyfjum.

Upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk:

  • Í tengslum við COVID-19 ættu klórókín og hýdroxýklórókín fyrst og fremst að vera notuð í klínískum rannsóknum. Séu lyfin notuð við COVID-19 utan klínískra rannsókna ætti að fylgja stöðluðu verklagi í hverju landi fyrir sig.
  • Áfram skal nota klórókín og hýdroxýklórókín við krónískum sjúkdómum. Til að koma í veg fyrir að til skorts komi á lyfjunum ættu sjúklingar einungis að fá ávísað sínum venjubundna skammti af þeim.

Frétt EMA um málið.

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat