Drög að stefnu lyfjayfirvalda í Evrópu til umsagnar

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og forstjórar evrópskra lyfjastofnana (HMA) hafa mótað sameiginlega stefnu lyfjastofnana á EES svæðinu til ársins 2025. Drög að stefnunni hafa verið lögð fram og óskað er eftir umsögnum bæði frá hagsmunaaðilum og almenningi, en hægt er að láta í ljós álit sitt með þátttöku í könnun fyrir 4. september nk.

Sex atriði eru í forgrunni stefnunnar:

  • framboð og aðgengi að lyfjum
  • gagnagreining, og þróun stafrænnar tækni
  • nýsköpun
  • sýklalyfjaónæmi og önnur heilsufarsógn
  • áskoranir tengdar framboði og miðlun lyfja
  • sjálfbærni og starfshæfni samskiptanets evrópskra lyfjastofnana

Stefnan mun móta starfsemi EMA og lyfjastofnana hvers lands á EES svæðinu næstu fimm árin. Stefnan var unnin í samráði við framkvæmdastjórn ESB, og meginlínur hennar eru samhljóða grunndrögum framkvæmdastjórnarinnar að lyfjastefnu Evrópusambandsins. Við smíði stefnunnar var einnig haft til hliðsjónar margt af því sem tengst hefur glímunni við COVID-19 faraldurinn. Því sem síðar mun lærast af þeirri glímu verður bætt við, enda hugmyndin að stefnan verði lifandi plagg sem verði endurskoðað reglubundið.

Eftir að ábendingar frá hagsmunaaðilum og almenningi hafa verið metnar munu framkvæmdastjórnir HMA og EMA taka ákvörðun um endanlega gerð undir lok þessa árs. Samantekt þeirra ábendinga sem berast mun fylgja með þegar stefnan verður birt.

Frétt EMA um samráð vegna stefnu til 2025

Drög að stefnu til 2025

Gátt vegna ábendinga um stefnu til 2025

Síðast uppfært: 18. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat