Fjölmiðlaumræða um tímabundinn lyfjaskort

Undanfarna daga hefur verið rætt um atvik í fjölmiðlum þar sem flogaveikt barn fékk ekki lyfin sín vegna lyfjaskorts. Orðið lyfjaskortur hefur verið notað til að lýsa vöntun á lyfi sem getur verið af ýmsum toga. Tímabundinn lyfjaskortur er eitt dæmi lyfjaskorts og getur orðið þegar ákveðinn styrkleiki eða lyfjaform (t.d. töflur eða mixtúra) á markaði, er ekki til vegna vandamála sem upp kunna að koma t.d. í framleiðsluferlinu. Oft er hægt að bregðast við slíkri vöntun ef samheitalyf er fáanlegt eða hægt er að nota annan styrkleika eða lyfjaform af lyfinu. Skortur sem þessi veldur óþægindum fyrir sjúklinga og lækna en er almennt séð ekki talinn alvarlegur skortur og oftast er hægt að leysa hann á einfaldan hátt. Sé ekki unnt að leysa skortinn með hefðbundnum leiðum tekur undanþágukerfið við sem er ætlað að leysa mál einstaklinga.

Komi til skorts á lyfjum sem eru á markaði á Íslandi er nær oftast hægt að leysa málið með undanþágu. Læknir getur sótt um leyfi til Lyfjastofnunar til að nota lyf sem ekki er með markaðsleyfi á Íslandi (undanþágulyf) fyrir sjúkling sinn þegar ekki er hægt að nota önnur lyf sem eru á markaði á Íslandi. Þegar slíkt leyfi er veitt er lyfið notað á ábyrgð læknisins. Verið getur að lyfið hafi markaðsleyfi í einhverju nágrannalandanna en upplýsingar um þessi lyf er ekki að finna í Sérlyfjaskrá, hvorki til heilbrigðisstarfsmanna né sjúklinga og íslenskur fylgiseðill er ekki í pakkningum lyfsins.

Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir Lyfjastofnunar segir sum lyf vandmeðfarnari en önnur og erfiðara um vik að nota ný lyfjaform eða skyld lyf. Jafnvel mjög tímabundinn skortur skapar því vandamál. „Þetta á til dæmis við um flest flogaveikilyf og þar með talið lyfið sem átti í hlut. Við á Lyfjastofnun gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir skort á öllum og sérstaklega slíkum lyfjum í samvinnu við umboðsaðila og lækna“.

Síðast uppfært: 1. september 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat