Fréttir

Lyfjastofnun Evrópu til Amsterdam

21.11.2017

Nú er ljóst að EMA, Lyfjastofnun Evrópu, flyst til Amsterdam áður en kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í mars 2019. Forsvarsmenn EMA munu þegar í stað hefja viðræður við hollensk stjórnvöld svo tryggja megi að flutningurinn gangi vel og að hann trufli ekki starf stofnunarinnar.

Borgirnar sem sóttu um metnar
Niðurstöðunnar hafði verið beðið með eftirvæntingu en nítján borgir sóttust eftir að fá stofnunina til sín; þrjár drógu umsókn sína til baka undir lokin. Eins og sagt var frá snemma í október var mikil vinna lögð í að greina tilboð borganna svo hægt væri að meta hvaða staðsetning hentaði best. Matið skiptist í tvennt. Annars vegar var um að ræða tæknilega greiningu á  byggingunum sem í boði voru, mat lagt á aðstöðuna sem og áætlun um flutning stofnunarinnar. Hins vegar upplýsingar um aðgengi svo sem flugsamgöngur en einnig hvað varðaði aðstöðu fyrir starfsmenn EMA og fjölskyldur þeirra. Var þar meðal annars horft til skólamála og atvinnumöguleika. Þær borgir sem komu best út í greiningu EMA voru Amsterdam, Barselóna, Brüssel, Dublin, Kaupmannahöfn og Mílanó. 

Kosið um staðsetningu í gær
Síðdegis í gær kom svo að því að því að ákveða hvar heimahagar EMA yrðu að loknu Brexit. Ráðherrar þeirra 27 ríkja sem eftir verða í ESB greiddu atkvæði, og urðu loturnar þrjár þar sem vinningsborgin þurfti að fá yfir helming atkvæða. Eftir þá fyrstu fékk Mílanó flest atkvæði en Amsterdam og Kaupmannahöfn næstflest og voru jafnar. Önnur umferð skilaði Mílanó aftur flestum atkvæðum en ekki nógu mörgum þó, og því var kosið í þriðja sinn, milli Amsterdam og Mílanó. Atkvæði féllu þá hnífjafnt svo í lokin var varpað upp hlutkesti sem reyndist Amsterdam í vil.

Hollendingar himinlifandi
Hollendingar eru himinlifandi yfir að fá EMA til sín. Niðurstaðan um staðsetninguna var fyrsta frétt í helstu fréttamiðlum þar í gærkvöldi, á undan fréttum af stjórnmálaástandinu í Þýskalandi sem þó er fylgst grannt með í Hollandi. Starfsmenn EMA eru um 900 og því munu fylgja starfseminni mikil umsvif. Helgi Hafsteinn Helgason sérfræðingur Lyfjastofnunar er búsettur í Hollandi. Hann sækir reglulega fundi hjá EMA fyrir hönd Lyfjastofnunar. Helgi segir að Hollendingar þakki fyrrum fjármálaráðherra sínum, Wouter Bos, ekki hvað síst fyrir að Amsterdam átti svo miklu fylgi að fagna. "Hann fór í 8 vikna ferðalag um alla Evrópu og heimsótti öll aðildarríkin til að sannfæra þau um að velja Holland. Þá var nýkosinn utanríkisráðherra, Zijlstra, með síðustu vikurnar til að kynna hversu góðan samning Hollendingarnir bjóða." segir Helgi og nefnir að í honum felist m.a. að reisa nýja byggingu sérstaklega fyrir EMA. Sjálfsagt hefur einnig vegið þungt í kosningu ráðherra aðildarríkjanna í gær að Amsterdam var sú borg sem starfsmenn stofnunarinnar töldu ákjósanlegasta eins og fram kom í niðurstöðu greiningarvinnunnar. 

Hentar Lyfjastofnun vel
Amsterdam er líka heppilegur staður frá sjónarhorni Lyfjastofnunar. Þangað eru tíðar ferðir með beinu flugi, sem skiptir þá sérfræðinga okkar stofnunar máli sem reglulega þurfa að fara utan til að starfa með EMA í höfuðstöðvunum.

Frétt EMA um niðurstöðuna

Sjá einnig:

Áætlun EMA vegna Brexit

Til baka Senda grein