Naloxon – mótefni gegn of stórum skammti ópíóíðlyfja

Naloxon er til í tvenns konar lyfjaformi, sem stungulyf og nefúðalyf. Stungulyfið, eða sambærileg lyf undir öðru heiti, hafa verið á markaði á Íslandi frá því á níunda áratugnum. Naloxon stungulyfið er lyfseðilsskylt og fyrst og fremst notað á heilbrigðisstofnunum, en einnig af bráðaliðum í sjúkrabílum. Nauðsynlegt er að þeir sem gefa lyfið á þessu formi hafi þekkingu og þjálfun við notkun þess.

Naloxon sem nefúði
Naloxon sem nefúði er tiltölulega nýlegt form lyfsins, kom fyrst á markað í Bandaríkjunum og Kanada árið 2015. Sem nefúði hefur naloxon ekki verið markaðssett fram að þessu á Íslandi, frekar en annars staðar í Evrópu. Það er hins vegar væntanlegt innan skamms og verður fyrst um sinn afgreitt á undanþágu hingað til lands frá Danmörku, að líkindum síðari hluta aprílmánaðar.

Naloxon í nefúðaformi verður lyfseðilsskylt, en ekki er þar með sagt að aðeins verði hægt að nálgast eina pakkningu lyfsins gegn lyfjaávísun í hvert sinn. Í reglugerðum um ávísun og afhendingu lyfja í apótekum er t.a.m. gert ráð fyrir því að hægt sé að ávísa lyfjum beint til lækna, starfs þeirra vegna, eða annarra viðbragðsaðila svo sem lögreglunnar. Þá er lyfjafræðingum í apótekum jafnframt heimilt að afgreiða og afhenda lyfseðilsskyld lyf í neyðartilvikum án þess að lyfseðli sé framvísað. Þessi heimild, sem stundum er vísað til sem neyðarréttar lyfjafræðinga, stendur ávallt opin og er lyfjafræðingsins að meta hverju sinni hvort um neyðartilvik sé að ræða. Auk þess er ekkert í lögum eða fyrrgreindum reglum sem kemur í veg fyrir að læknir ávísi umræddu lyfi til fíkla eða aðstandenda þeirra, svo grípa megi til í neyð. Er þetta sambærilegt við ávísun og notkun adrenalínpenna sem t.d. er gripið til þegar bráðaofnæmiskast kemur upp. 

Lyfseðilsskylt – öryggis vegna
Naloxon kemur í veg fyrir að ópíóíðalyf nái til móttaka í líkamanum, stöðvar þar með upptöku þeirra, og getur notkun naloxons því valdið fráhvörfum. Á hinn bóginn virkar naloxon alla jafna skemur en ópíóíðalyfin og því getur skapast lífshættulegt ástand á nýjan leik þegar virkni naloxonsins fjarar út. Það að naloxon sé lyfseðilsskylt undirstrikar að lyfið er vandmeðfarið, skuli notað með varúð og ýtrustu leiðbeiningum fylgt. Mikilvægt er því að ekki verði litið á naloxon nefúða sem forvörn eða lyf sem veitir falskt öryggi. Það skyldi einungis nota til bráðameðferðar við ofskömmtun ópíóíða, þar til unnt er að koma sjúklingi undir læknishendur.  

Samráðsfundur vegna naloxons
Lyfjastofnun efnir í byrjun næstu viku til fundar með viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal frá bráðamóttöku Landspítala og lögreglunni. Fyrirhugað er að ræða notkun lyfsins hér á landi og hvernig stuðla megi að góðu aðgengi að því fyrir þá sem til þess þurfa að grípa. 

Síðast uppfært: 4. apríl 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat