Fréttir

Ný lyf á markað 1. desember 2010

Stutt samantekt um ný lyf á markaði 1. desember 2010.

2.12.2010

Ný lyf

Adcirca filmuhúðuð tafla, 20 mg. Virka efnið, tadalafil, er s.k. fosfódíesterasahemill af gerð 5 (PDE5). Lyfið slakar á lungnaæðum og bætir þannig blóðflæði til lungna. Það er notað við háþrýstingi í lungnaslagæðum. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í hjarta- og lungnasjúkdómum mega ávísa því.

Duodart hylki, hart, 0,5/0,4 mg. Duodart er samsetning tveggja lyfja, dútasteríðs og tamsúlósíns. Dútasteríð tilheyrir flokki lyfja sem kallast 5‑alfa-redúktasahemlar og tamsúlósín flokki lyfja sem kallast alfa-blokkar. Lyfið er ætlað körlum með góðkynja stækkun blöðruhálskirtils. Það er lyfseðilsskylt.

Galieve Cool Mint/Galieve Peppermint mixtúra dreifa/tuggutafla. Lyfið inniheldur natríumalgínat, natríumhýdrógenkarbónat (matarsóda) og kalsíumkarbónat. Það er notað við meðferð einkenna maga- og vélindabakflæðis, svo sem nábít (sýrubakflæði), brjóstsviða og meltingartruflunum (tengdum bakflæði), t.d. eftir máltíðir eða á meðgöngu, eða hjá sjúklingum með einkenni tengd vélindabólgu vegna bakflæðis. Lyfið fæst án lyfseðils.

Javlor innrennslisþykkni, lausn, 25 mg/ml. Javlor inniheldur virka efnið vínflúnín, sem tilheyrir flokki krabbameinslyfja sem kallast vinca alkalóíðar. Þessi lyf hafa áhrif á æxlisvöxt með því að stöðva frumuskiptingu, og leiða til frumudauða (frumudrepandi áhrif). Lyfið er notað við krabbameini í þvagfærum sem er langt gengið eða með meinvörpum ef fyrri meðferð með platínulyfjum hefur ekki borið árangur. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í krabbameinslækningum mega ávísa því.

Nicorette Freshdrops munnsogstafla, hörð, 2 mg. Lyfið inniheldur nikótín og er notað sem hjálpartæki til að hætta að reykja. Það dregur úr nikótínþörf og fráhvarfseinkennum. Lyfið fæst án lyfseðils.

Ný samhliða innflutt lyf

Terbinafine (DAC) tafla, 250 mg.

Nýtt lyfjaform

Ciprofloxacin Portfarma innrennslislyf, lausn, 2 mg/ml.

Nýr styrkleiki

Fluconazole Portfarma hylki, hart, 200 mg. 

Ný dýralyf

Ingelvac CircoFLEX stungulyf, dreifa. Lyfið er bóluefni, notað til virkrar mótefnamyndunar hjá svínum eldri en tveggja vikna gegn svínacircoveiru af gerð 2 (PCV2). Lyfið er lyfseðilsskylt.

Trocoxil tuggutafla, 6 mg, 20 mg, 30 mg 75 mg og 95 mg. Virka efnið heitir mavacoxib og tilheyrir flokki lyfja sem kölluð eru bólgueyðandi gigtarlyf. Lyfið er ætlað við verkjum og bólgu vegna slitgigtar í hundum í tilfellum þar sem þörf er á samfelldri meðferð sem varir lengur en í einn mánuð. Lyfið er lyfseðilsskylt.

  

Listi yfir lyf markaðssett 2010 er hér.Til baka Senda grein