Fréttir

Aukaverkanir af völdum cidofovir

Norska lyfjastofnunin varar við „off-label“ notkun á lyfinu Vistide

27.1.2011

Í frétt á vef norsku lyfjastofnunarinnar er sagt frá því að vitað sé um alvarlegar aukaverkanir af völdum veirusýkingalyfsins Vistide (cidofovir) þegar það hefur verið notað á annan hátt en viðurkennt er samkvæmt samantekt á eiginleikum lyfsins („off-label“).

Vistide (cidofovir) er veirusýkingalyf og ætlað til meðferðar við CMV sjónubólgu hjá fullorðnum með alnæmi (AIDS) sem ekki eru með skerta nýrnastarfsemi. Ekki skal nota Vistide nema þegar önnur lyf eru ekki talin eiga við. Ákvörðun um meðferð skal vera í höndum læknis með reynslu í meðhöndlun HIV sýkingar.

Algengustu aukaverkanir sem tilkynntar hafa verið eru eiturverkanir á nýru, eiturverkanir á augu og daufkyrningafæð.

Vistide sem er innrennslisþykkni er einungis ætlað til innrennslis í bláæð þar sem blóðflæði er nægilega mikið til að tryggja hraða þynningu og dreifingu. Ekki má gefa það með öðrum aðferðum, þar með talinni inndælingu í auga, eða á staðbundinn hátt.

Vistide hefur markaðsleyfi á Íslandi en hefur ekki verið markaðsett. Lyfið hefur verið flutt inn á undanþágu og er Z og S merkt (bundið við ávísun sérfræðinga í smitsjúkdómum og notkun á sjúkrahúsum).

Notkun lyfsins hér á landi er mjög lítil. Engar aukaverkanir af völdum þess hafa verið tilkynntar til Lyfjastofnunar.Til baka Senda grein