Fréttir

Ný lyf á markað 1. ágúst 2011

Stutt samantekt um ný lyf á markaði 1. ágúst 2011.

2.8.2011

Ný lyf

Astrozol filmuhúðuð tafla, 1 mg. Astrozol inniheldur virka efnið anastrozol. Það tilheyrir hópi lyfja sem nefnast arómatasahemlar og er notað við brjóstakrabbameini hjá konum eftir tíðahvörf. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Coversyl Novum filmuhúðuð tafla, 5 mg. Virka efnið í Coversyl Novum nefnist perindóprílarginín og er s.k. ACE hemill. Lyfið er notað við ýmsum hjartasjúkdómum, t.d. háþrýstingi og hjartabilun. Það er lyfseðilsskylt.

Exemestan Actavis filmuhúðuð tafla, 25 mg. Exemestan hemur efni sem nefnist aromatasi. Lyfið er notað til meðferðar á ífarandi brjóstakrabbameini án meinvarpa hjá konum sem hafa fengið meðferð með tamoxifeni í 2-3 ár. Það er einnig notað við langt gengnu brjóstakrabbameini, þegar meðferð með öðru hormónalyfi hefur ekki skilað nægum árangri. Lyfið er lyfseðilskylt.

Jevtana innrennslisþykkni, leysir, lausn, 60 mg. Virka efnið í Jevtana er cabazitaxel. Það tilheyrir flokki lyfja sem kallast taxön og er notað við krabbameini í blöðruhálskirtli sem versnað hefur eftir aðra krabbameinsmeðferð. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í krabbameinslækningum mega ávísa því.

SmofKabiven/SmofKabiven Elektrolytfri/SmofKabiven Perifer innrennslislyf, fleyti. SmofKabiven og SmofKabiven Perifer innihalda amínósýrur, glúkósa, lípíð og sölt. SmofKabiven Elektrolytfri inniheldur aminósýrur, glúkósa og lípíð. Þau eru notuð sem næring í æð þegar næring um munn eða þarma er ekki möguleg eða ófullnægjandi. Notkun er bundin við sjúkrastofnanir.

Strepsils Warm munnsogstafla. Virku innihaldsefnin eru tvíklóróbensýlalkóhól og amýlmetakresól. Lyfið er notað við eymslum og ertingu í hálsi. Það fæst án lyfseðils.

Nýtt samhliða innflutt lyf

Esomeprazol Krka (LYFIS) sýruþolið hylki, hart, 20 mg og 40 mg.

Ný dýralyf

Cartrophen Vet stungulyf, lausn, 100 mg/ml. Virka efnið er natríumpentósanpólýsúlfat. Lyfið er notað við helti og verkjum vegna liðahrörnunar/slitgigtar hjá hundum. Lyfið er lyfseðilsskylt og eingöngu dýralæknar mega gefa það.

Melovem stungulyf, lausn, 5 mg/ml. Lyfið inniheldur meloxicam sem er bólgueyðandi verkjalyf (NSAID). Það er ætlað nautgripum og svínum. Lyfið er lyfseðilsskylt og eingöngu dýralæknar mega gefa það.

Twinhip Vet. pasta til inntöku, 439 mg/g. Virka efnið er pýrantel embónat. Lyfið er notað við ormasýkingum í hrossum. Það er lyfseðilsskylt.

Uniferon stungulyf, lausn, 200 mg/ml. Uniferon inniheldur járnhýdroxíðdextrankomplex. Það er notað til meðferðar við og til að fyrirbyggja járnskort hjá grísum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

 

Listi yfir lyf markaðssett 2011 er hér.Til baka Senda grein