Fréttir

Lyfjastofnun vekur athygli á mikilvægi fylgiseðilsins og hvetur notendur lyfja til að kynna sér efni þeirra vandlega áður en notkun lyfs hefst.

Mjög mikilvægt er að kynna sér vel efni fylgiseðla lyfja. Þar er að finna upplýsingar um rétta notkun lyfja, auk upplýsinga sem komið geta í veg fyrir óþarfa eða skaðlega notkun, ásamt öðru sem stuðlar að öryggi við notkun lyfja.

19.8.2011

Öðru hverju henda slys sem rekja má til rangrar lyfjanotkunar. Slys af þessu tagi geta haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ástæður þessara slysa eru oft ófullnægjandi upplýsingagjöf til notandans og að notendur lyfja kynna sér ekki nægilega vel upplýsingar um lyfið sem eru í fylgiseðli þess.

Lesum_Fylgisedilinn

Fylgiseðill er yfirleitt laust blað eða bæklingur í lyfjapakkningum. Einnig getur fylgiseðill verið hluti af merkimiða lyfjapakkningar og er þá oft um nokkurs konar flettimiða að ræða.

Í fylgiseðlum lyfja sem fást án lyfseðils eru, auk þeirra upplýsinga sem eru almennt í fylgiseðlum, sérstakar upplýsingar um notkun lyfsins, sem taka mið af því að læknir hefur ekki ávísað lyfinu og veitt upplýsingar um það og notkun þess.

Á vef Lyfjastofnunar eru ítarlegar upplýsingar um fylgiseðla og hvaða upplýsingar þeir hafa að geyma, ásamt dreifimiða sem fáanlegur er í lyfjabúðum og á heilbrigðisstofnunum.

Textar fylgiseðla eru einnig birtir á vef Lyfjastofnunar og þar er ávallt nýjasta útgáfa seðilsins.

Lyfjastofnun hvetur starfsfólk lyfjabúða og annað starfsfólk í heilbrigðisþjónustu til að upplýsa notendur lyfja markvisst um notagildi fylgiseðla.Til baka Senda grein