Fréttir

Mistök við afgreiðslu lyfs í lyfjabúð - mikilvægi fylgiseðla lyfja

Vegna fyrirspurna sem Lyfjastofnun hafa borist um mistök við afgreiðslu á Nitromex tungurótartöflum í lyfjabúð sem fjölmiðlar hafa greint frá að undanförnu skal upplýst að um var að ræða lausasölulyf en ekki afgreiðslu gegn lyfseðli læknis.

29.8.2011

Lyfjastofnun vill árétta við starfsfólk lyfjabúða mikilvægi þess að þegar lyf eru afgreidd, hvort sem er um að ræða lyf í lausasölu eða lyf samkvæmt lyfseðli, að viðskiptavinum sé leiðbeint um notkun lyfjanna. Þá er ekki síður mikilvægt að vekja athygli notenda lyfja á upplýsingum í fylgiseðlum og hvetja til þess að fylgiseðillinn sé lesinn áður en notkun lyfs hefst, enda eru í honum mikilvægar upplýsingar fyrir notandann. Með því má draga úr líkum á mistökum sambærilegum þeim sem fjölmiðlaumræðan undanfarið hefur snúist um.

Lyfjastofnun hvetur notendur lyfja til að lesa fylgiseðil lyfs áður en það er notað. Fylgiseðlar eru í pakkningum flestra lyfja en einnig eru fylgiseðlar birtir á heimasíðu Lyfjastofnunar. Í fylgiseðlum eru nauðsynlegar upplýsingar, t.d. við hverju lyfið er ætlað, mikilvæg öryggisatriði og leiðbeiningar um notkun. Minni líkur eru á mistökum vegna notkunar lyfja ef notendur þeirra eru vel upplýstir um lyfin sín.Til baka Senda grein