Fréttir

Ný lyf á markað 1. nóvember 2011

Stutt samantekt um ný lyf á markaði 1. nóvember 2011.

1.11.2011

Ný lyf

Dorzolamide/Timolol Portfarma augndropar, lausn, 20/5 mg. Lyfið inniheldur tvö virk efni, tímólól sem er beta-blokki og dorzólamíð sem er s.k. kolsýruanhýdrasahemill. Bæði efnin minnka augnþrýsting. Lyfið er notað við háum augnþrýstingi (t.d. gláku) þegar einlyfjameðferð hefur ekki dugað. Það er lyfseðilsskylt.

Esomeprazole Portfarma sýruþolin tafla, 20 mg og 40 mg. Esómeprazól er s.k. prótónpumpuhemill. Lyfið dregur úr sýrumyndun í maga. Það er m.a. notað við vélindabakflæði og magasárum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Halaven stungulyf, lausn, 0,44 mg/ml. Virka innihaldsefnið nefnist eribúlínmesýlat. Lyfið er ætlað til meðferðar við staðbundnu langt gengnu brjóstakrabbameini, eða brjóstakrabbameini með meinvörpum. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í krabbameinslækningum mega ávísa því.

Levact stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn, 2,5 mg/ml. Virka innihaldsefnið er bendamústínklóríð. Lyfið er notað eitt sér eða samtímis öðrum lyfjum til meðferðar við ýmsum tegundum af krabbameini. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum mega ávísa því.

Montelukast Actavis filmuhúðuð tafla, 10 mg. Montelúkast er s.k. leukotríenviðtakahemill. Lyfið er notað við astma. Það er lyfseðilsskylt.

Nicotinell Tropical Fruit lyfjatyggigúmmí, 2 mg og 4 mg. Lyfið inniheldur nikótín og er notað sem hjálpartæki til að hætta að reykja. Það dregur úr nikótínþörf og fráhvarfseinkennum. Lyfið fæst án lyfseðils.

Ný samhliða innflutt lyf

Ramipril Actavis (DAC) tafla, 5 mg.

Repaglinide Krka (LYFIS) tafla, 0,5 mg, 1 mg og 2 mg.

Nýir styrkleikar

Atorvastatin Portfarma filmuhúðuð tafla, 80 mg.

Glimeryl tafla, 4 mg.

Kozylez munndreifitafla, 15 mg.

Tamiflu hylki, hart, 30 mg og 45 mg.

Ný dýralyf

Combisyn stungulyf, dreifa, 14/3,5% og tafla, 50 mg eða 250 mg. Virku innihaldsefnin eru amoxicillín og klavúlansýra. Stungulyfið er ætlað til meðhöndlunar öndunarfærasýkinga hjá nautgripum. Töflurnar eru ætlaðar hundum og köttum við ýmsum sýkingum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Flunixin stungulyf, lausn, 50 mg/ml. Virka innihaldsefnið nefnist flunixinmeglúmín. Lyfið er bólgueyðandi og verkjastillandi (NSAID) og ætlað hrossum, nautgripum og svínum. Það er lyfseðilsskylt og eingöngu dýralæknar mega gefa það.

Genestran stungulyf, lausn, 75 míkróg/ml. Virka efnið er klóprostenól. Lyfið er notað m.a. til að stilla gangmál og eyða gulbúum í hrossum, nautgripum og svínum. Það er lyfseðilsskylt.

Noromectin áhella, lausn 0,5% og pasta til inntöku, 1,87% og Noromectin Drench mixtúra, lausn 0,8 mg/ml. Lyfið inniheldur virka efnið ívermektín. Það er sníklalyf sem drepur þráðorma, skordýr og mítla hjá fjölda húsdýrategunda. Pastað er ætlað hrossum, áhellan nautgripum og mixtúran er ætluð fyrir sauðfé. Mixtúran og áhellan eru lyfseðilsskyld en pastað fæst án lyfseðils.

Listi yfir lyf markaðssett 2011 er hér.

Til baka Senda grein