Fréttir

Ný lyf á markað 1. desember 2011

Stutt samantekt um ný lyf á markaði 1. desember 2011.

2.12.2011

Ný lyf

Benlysta innrennslisstofn, lausn, 120 mg og 400 mg. Benlysta inniheldur belimumab. Það dregur úr fjölda B-frumna í líkamanum með því að hindra virkni próteinsins BLyS. Lyfið er notað við rauðum úlfum. Notkun þess er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í gigtarlækningum og ónæmisfræði mega ávísa því.

Doxorubicin Actavis stungulyfsstofn, lausn, 10 mg og 50 mg. Doxorubicin er notað við meðferð ýmissa tegunda af krabbameini. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í blóðsjúkdómum og krabbameinslækningum mega ávísa því.

Epiduo hlaup, 0,1%/2,5%. Í lyfinu eru tvö virk innihaldsefni, adapalen og benzóýl peroxíð. Það er notað til við þrymlabólum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Fampyra forðatafla, 10 mg. Lyfið inniheldur virka efnið famprídín sem tilheyrir flokki lyfja sem kallast kalíumgangalokar. Það er notað til að bæta göngu hjá fullorðnum með gönguröskun er tengist heila- og mænusiggi (MS). Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í taugasjúkdómum mega ávísa því.

Galantamine Portfarma forðahylki, hart, 8 mg og 16 mg. Galantamín er notað við einkennum vitglapa af Alzheimersgerð Lyfið er lyfseðilsskylt.

Levetiracetam Actavis filmuhúðuð tafla, 250 mg, 500 mg og 1000 mg. Levetiracetam er notað við flogaveiki. Það er lyfseðilsskylt.

Metformin Actavis filmuhúðuð tafla, 500 mg. Metformín tilheyrir hópi lyfja sem nefnast bígvaníð. Lyfið er notað við sykursýki 2 og er lyfseðilsskylt.

Octaplex innrennslisstofn og leysir, lausn, 500 a.e. Octaplex inniheldur K-vítamínháða storkuþætti II, VII, IX og X. Lyfið er notað við blæðingum og til að fyrirbyggja blæðingar. Notkun þess er bundin við sjúkrastofnanir.

Olanzapine Ranbaxy tafla, 2,5 mg, 5 mg og 10 mg. Ólanzapín er svokallað geðrofslyf. Það er m.a. notað við geðklofa og geðhvörfum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Oracea hart hylki með breyttan losunarhraða, 40 mg. Virka innihaldsefnið er doxýcýklín sem er í flokki tetracýklína. Lyfið er ætlað til að draga úr graftarbólum eða rauðum hnúðum í andliti af völdum rósroða. Það er lyfseðilsskylt.

Riastap stungulyfs-/innrennslisstofn, lausn, 1 g. Riastap er framleitt úr blóðvökva manna og virka efnið í því er fíbrínógen. Það er notað við blæðingum hjá sjúklingum með arfgengan skort á fíbrínógeni. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í blóðsjúkdómum mega ávísa því.

Saroten tafla, 10 mg og 25 mg. Virka innihaldsefnið er amitriptýlín. Það tilheyrir flokki svokallaðra þríhringlaga þunglyndislyfja. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Trobalt filmuhúðuð tafla, 50 mg, 100 mg, 200 mg, 300 mg og 400 mg. Virka innihaldsefnið er retigabín. Lyfið er notað við flogaveiki. Það er lyfseðilsskylt.

Zytiga tafla, 250 mg. Virka innihaldsefnið nefnist abirateron acetat. Það er notað til meðferðar við blöðruhálskirtilskrabbameini með meinvörpum. Notkun lyfsins er bundin við sjúkrastofnanir og einungis sérfræðingar í krabbameinslækningum mega ávísa því.

Nýir styrkleikar

Míron Smelt munndreifitafla, 45 mg.

Pranolol tafla, 80 mg.

Nýtt dýralyf

Detonervin vet. stungulyf, lausn, 10 mg/ml. Virka efnið heitir detomidin. Lyfið er notað til að róa og til vægrar deyfingar hrossa og nautgripa til að auðvelda læknisskoðun og meðhöndlun líkt og minniháttar skurðaðgerðir. Eingöngu dýralæknar mega gefa lyfið.

Listi yfir lyf markaðssett 2011 er hér.Til baka Senda grein