Fréttir

„Vanverkun lyfja“ - aukaverkun

Hafi samheitalyf ekki þá verkun sem búast má við flokkast það sem aukaverkun og er skráð á sama hátt og aðrar aukaverkanir.

26.6.2012

Samheitalyf kallast þau lyf sem eru þróuð til að þjóna sama tilgangi og fyrsta lyfið með sama virka efni, sem kallast þá frumlyf. Samheitalyfið inniheldur sama virka efnið, í sama magni og sama lyfjaformi og frumlyfið. Hjálparefni og pakkningar geta hins vegar verið frábrugðnar og heiti er annað.

Sömu kröfur eru gerðar til gæða samheitalyfja og frumlyfja.

Þegar skipt er úr einu lyfi í annað má alltaf búast við fráviki í verkun jafnvel þótt sama virka efni sé í báðum lyfjum og sömu skammtar notaðir. Ástæða þessa getur m.a. stafað af einstaklingsbundnum mismuni.

Þegar lítil frávik í blóðþéttni lyfs hefur mikil áhrif á ástand sjúklings geta lyfjaskiptin því haft áhrif á sjúkdómsástand hans. Nauðsynlegt er að gæta sérstakrar varúðar þegar skipt er um lyf í meðferð slíkra sjúkdóma.

Útgáfa markaðsleyfa fyrir lyf og skráning aukaverkana er á forræði Lyfjastofnunar.

Ákvörðun um greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði og hvaða lyf eru í viðmiðunarverðskrá er á forræði lyfjagreiðslunefndar en útgáfa lyfjaskírteina er á forræði Sjúkratrygginga Íslands.

Aukinn fjöldi samheitalyfja á markaði, sem oftast eru ódýrari en frumlyf, og ákvörðun velferðarráðuneytis að aðeins skuli taka þátt í greiðslu ódýrustu lyfja, leiðir til tíðari lyfjaskipta hjá sjúklingum. Oftast valda skiptin engum vandkvæðum en ef nauðsyn krefur geta Sjúkratrygginga Íslands breytt greiðsluþátttöku fyrir sjúkling með útgáfu lyfjaskírteina.

Að undanförnu hefur talsvert borið á að tilkynntar aukaverkanir hafi verið vegna ónógrar verkunar samheitalyfja sem stundum hefur verið kölluð vanvirkni. Ástæða þessa má rekja til fjölgunar samheitalyfja á markaði.

Þegar lyfjaskipti fara fram er nauðsynlegt að gera sjúklingi grein fyrir því að hann geti fundið fyrir mismuni á verkun, sérstaklega þegar um viðkvæma lyfjameðferð er að ræða og þegar sjúklingur hefur notað sama lyf lengi.
Til baka Senda grein