Fréttir

Lækkun á einstökum skammti ondansetrons stungulyfja

Ondansetron getur haft áhrif á hjartsláttartakt. Mesti einstaki skammtur við gjöf í æð er 16 mg gefinn á 15 mínútum.

15.8.2012

Þegar ondansetron er gefið í einstökum skammti í bláæð, í fyrirbyggjandi meðferð gegn ógleði og uppköstum af völdum frumudrepandi krabbameinslyfja og geislameðferðar, hefur ráðlagður hámarks einstakur skammtur verið lækkaður úr 32 mg í 16 mg gefið á a.m.k. 15 mínútum.

Takmörkun þessi er tilkomin vegna nýrrar rannsóknar sem  sýndi fram á, að eftir því sem lyfið er notað í hærri skömmtum er meiri hætta á lengdu QT-bili (breyting á hjartarafriti) sem er þekkt aukaverkun lyfsins. Lenging á QT-bili getur tengst alvarlegum hjartsláttartruflunum, mögulega lífshættulegum sleglahraðtakti (torsades de pointes).

Verið er að uppfæra lyfjatexta (SmPC og fylgiseðla) fyrir öll lyf til notkunar í bláæð sem innihalda ondansetron, með þessum nýju ráðleggingum og viðbótarupplýsingum um viðkomandi rannsóknarniðurstöður.

Ráðleggingar við notkun Ondansetron stungulyfja

  • Stakur skammtur af ondansetróni í bláæð, sem gefinn er til varnar gegn ógleði og uppköstum af völdum krabbameinslyfjameðferðar hjá fullorðnum, má ekki vera stærri en 16 mg gefið sem innrennsli á minnst 15 mínútum.
  • Forðast skal notkun ondansetróns hjá sjúklingum með meðfætt heilkenni QT-lengingar.
  • Gæta skal varúðar ef ondansetrón er gefið sjúklingum með áhættuþætti tengda lengingu QT-bils eða hjartsláttartruflunum. Meðal þeirra eru truflanir á blóðsöltum, hjartabilun, hægsláttartruflanir eða notkun annarra lyfja sem geta leitt til truflana á blóðsöltum. Leiðrétta skal blóðkalíumlækkun og blóðmagnesíumlækkun áður en ondansetrón er gefið.
  • Gæta skal varúðar þegar ondansetrón er gefið samhliða öðrum lyfjum, þ.m.t. sumum frumudrepandi lyfjum, sem lengja QT-bilið.
  • Engar breytingar voru gerðar á ráðlögðum skömmtum þegar lyfið er notað hjá börnum eða við öðrum ábendingum hjá fullorðnum sjúklingum (með gjöf í bláæð eða til inntöku) hjá börnum.

Hér á landi eru tvö lyf á markaði sem að innihalda Ondansetron í stungulyfjaformi, Zofran og Ondansetron Vian.

Markaðsleyfishafi Zofran hefur þegar sent bréf með framangreindum öryggisupplýsingum, til viðkomandi sérfræðilækna á Íslandi.

Minnt er á mikilvægi þess að tilkynna aukaverkanir til Lyfjastofnunar, sjá leiðbeiningar (og rafræn eyðublöð) á heimasíðu stofnunarinnar.

Til baka Senda grein