Fréttir

Ný lyf á markað 1. október 2012

Stutt samantekt um ný lyf á markaði 1. október 2012

3.10.2012

Atorvastatin Bluefish Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 10 mg, 20 mg, 40 mg eða 80 mg atorvastatin  sem atorvastatin kalsíum þríhýdrat. Lyfið er ætlað  sem viðbót við breytingu á mataræði til að lækka of hátt heildar-kólesteról og sem viðbót til að leiðrétta aðra áhættuþætti og til varnar hjarta- og æðasjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.
 
Cypretyl Hver húðuð tafla inniheldur 2 mg af cyproteron acetati og 35 míkrógrömm af etinylestradioli. Lyfið er ætlað konum til meðferðar við andrógenháðum þrymlabólum, flösu (seborrhoea) og vægri ofloðnu (hirsutism) og sem getnaðarvörn hjá konum með sömu einkenni. Þó nota megi Cypretyl sem getnaðarvörn, skal það aðeins gert hjá konum sem þurfa meðferð við þessum einkennum. Lyfið er lyfseðilsskylt.
 

Fluconazol ratiopharm Hvert hart hylki inniheldur 50 mg eða 150 mg af fluconazoli. Lyfið er ætlað til meðferðar við sýkingum þegar þær eru af völdum sveppa, sem er vitað eða talið líklegt að séu næmir fyrir fluconazoli. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Iasibon Innrennslisþykkni, lausn. Hver ml af innrennslisþykkni, lausn inniheldur 1 mg af íbandrónsýru (sem 1,125 mg íbandrónsýra einnatríum salt, einhýdrat). Lyfið er ætlað til varnar beinkvillum (brotum sem stafa af sjúkdómum, fylgikvillum í beinum þegar þörf er á geislaeðferð eða skurðaðgerð) hjá sjúklingum með brjóstakrabbamein og meinvörp í beinum og meðferðar á blóðkalsíumhækkun af völdum æxlis, með eða án meinvarpa. Lyfið er lyfseðilsskylt og S-merkt.

Monofer Innrennslislyf, lausn. Hver ml af lausn inniheldur 100 mg af járni sem járn(III)ísómaltósíð 1000. Lyfið er ætlað til meðferðar við járnskortsblóðleysi þegar járnlyf til inntöku virka ekki eða ekki er hægt að nota þau og þegar klínískt er þörf fyrir hraða gjöf járns. Lyfið er lyfseðilsskylt.

OsvaRen Hver filmuhúðuð tafla inniheldur kalsíum asetat 435,00 mg sem jafngildir 110 mg af kalsíum og þungt magnesíum karbónat 235,00 mg sem jafngildir 60 mg af magnesíumi. Lyfið er ætlað til blóðfosfathækkunar hjá sjúklingum með langvarandi skerta nýrnastarfsemi sem eru í skilunarmeðferð (blóðskilun eða kviðskilun). Lyfið er lyfseðilsskylt.

Ozurdex Vefjalyf í ísetningaráhaldi til notkunar í glerhlaup augans inniheldur 700 míkrógrömm af dexametasóni. Lyfið er ætlað til meðferðar fullorðinna sjúklinga með bjúg í sjónhimnudíl (macula) og til meðferðar á fullorðnum sjúklingum með baklæga æðahjúpsbólgu (uveitis), sem er ekki vegna sýkingar. Sala lyfsins á Íslandi er háð skilyrðum sem kveða á um sérstakar aðgerðir markaðsleyfishafa til að lágmarka áhættu og/eða tryggja rétta verkun lyfsins. Lyfið er lyfseðilsskylt, S-merkt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í augnlækningum.

Quetiapin Orion Hver filmhúðuð tafla inniheldur 20 mg, 100 mg, 200 mg eða 300 mg af quetiapini sem fúmarati. Lyfið er ætlað til meðferðar á geðklofa, í meðallagi alvarlegum til alvarlegum geðhæðarlotum í tengslum við geðhvarfasjúkdóm, alvarlegum geðlægðarlotum í geðhvarfasjúkdómi og til að koma í veg fyrir bakslag hjá sjúklingum með geðhvarfasjúkdóm. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Targin Hver forðatafla inniheldur 10 mg af oxýkódon hýdróklóríði sem jafngilda 9,0 mg af oxýkódoni, 5,45 mg af naloxón hýdróklóríð tvíhýdrati sem jafngilda 5,0 mg af naloxón hýdróklóríði og 4,5 mg af naloxóni eða 20 mg af oxýkódon hýdróklóríði sem jafngilda 18,0 mg af oxýkódoni, 10,9 mg af naloxón hýdróklóríð tvíhýdrati sem jafngilda 10,0 mg af naloxón hýdróklóríði og 9 mg af naloxóni. Lyfið er ætlað til meðhöndlunar á verkjum sem ekki næst nægileg stjórn á nema með ópíóíð verkjalyfjum. Naloxóni er bætt í til að vinna gegn hægðatregðu af völdum ópíóíða. Lyfið er eftirritunarskylt.

Xagrid Hvert hart hylki inniheldur 0,5 mg af anagrelíði sem anagrelíðhýdróklóríð. Lyfið er notað til að fækka blóðflögum hjá áhættusjúklingum með eðlislæga blóðflagnafjölgun (essential thrombocythaemia) sem þola ekki núverandi meðferð eða þar sem hækkuðblóðflagnatalning lækkar ekki nægjanlega við núverandi meðferð. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Sjá lista

Til baka Senda grein