Fréttir

Fréttatilkynning frá Lyfjastofnun

Á samvinnufundi um ástand lyfjamála kom fram að Lyfjastofnun myndi áfram leggja áherslu á að lyfjafyrirtækin skrái lyf sem nú eru í undanþágukerfinu, ekki hvað síst lyf sem einkum eru ætluð börnum.

22.11.2012

„Ástand lyfjamála“ var yfirskrift samvinnufundar sem Lyfjastofnun hélt í gær, 21. nóvember, með ýmsum hagsmunaaðilum sem að lyfjamálum koma. Fulltrúar Lyfjastofnunar fóru stuttlega yfir hið evrópska regluverk sem gildir hérlendis um markaðsleyfi lyfja og yfir þær aðgerðir sem stofnunin beitir nú þegar til að stuðla að framboði lyfja. Fulltrúi Frumtaka rakti ýmis atriði frá sjónarhjóli lyfjafyrirtækja. Miklar og góðar umræður fóru fram á fundinum og allir hagsmunaaðilar greindu frá sinni afstöðu og tillögum.

Á fundinum kom fram að Lyfjastofnun myndi áfram leggja áherslu á að lyfjafyrirtækin skrái lyf sem nú eru í undanþágukerfinu, ekki hvað síst lyf sem einkum eru ætluð börnum. Jafnframt að allir sem hlut eiga að máli sameinist um að koma í veg fyrir tímabundinn skort á skráðum lyfjum, eftir því sem unnt er.

Fyrir liggur að engin ein lausn er á öllum vandamálum sem upp geta komið. Ýmsar leiðir eru þó færar sem mögulega geta fækkað vandamálum. Allir hagsmunaaðilar þurfa að koma að málum og á fundinum kom fram eindreginn vilji til slíks.

Lyfjastofnun mun vinna úr ábendingum sem komu fram á fundinum og lúta að verksviði stofnunarinnar. Jafnframt væntir Lyfjastofnun þess að velferðarráðuneyti, lyfjagreiðslunefnd, Sjúkratryggingar Íslands, lyfjafyrirtæki og aðrir sem hlut eiga að máli taki til skoðunar ábendingar sem fram komu á fundinum.

Sjá samvinnufund um lyfjamál

 

 

Frá samvinnufundi um ástand lyfjamála

 

 

 

 

 

 

Til baka Senda grein