Fréttir

Áminning vegna lyfjaauglýsingar

Lyfjastofnun veitir Artasan ehf. áminningu vegna brota á ákvæðum lyfjalaga og reglugerðar um lyfjaauglýsingar.

26.11.2012

Með bréfi dags. 21.11.2012 hefur Lyfjastofnun veitt Artasan ehf., umboðsaðila fyrir m.a. Voltaren hlaup og Voltaren Dolo, frá markaðsleyfishafanum Novartis Healthcare A/S, áminningu í kjölfar auglýsinga fyrirtækisins á „Voltaren“ í útvarpi.  Í auglýsingunni kom fram orðið „Voltaren“ og lagið „höfuð, herðar, hné og tær“ hummað. 
 
Ómögulegt var, fyrir þá sem auglýsingunni var beint að, að greina hvort um var að ræða auglýsingu á lyfseðilsskyldu Voltaren eða lausasölu Voltaren, sem hvort tveggja er á markaði á Íslandi frá markaðsleyfishafanum Novartis Healthcare A/S.  Af þeim sökum var auglýsingin metin sem auglýsing lyfseðilsskylds lyfs og því talin brjóta gegn 15. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 10. gr. reglugerðar nr. 328/1995 um lyfjaauglýsingar.
 

Þar sem Lyfjastofnun hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af auglýsingum Artasan ehf., án tilætlaðs árangurs, var Artasan ehf. nú veitt áminning á grundvelli 47. gr. lyfjalaga.

Til baka Senda grein