Fréttir

Fjölgun markaðssettra lyfja á Íslandi

Áhersla verður lögð á að skráð verði lyf sem eru í mikilli og samfelldri notkun í undanþágukerfi lyfja.

27.2.2013

Allt frá því Lyfjastofnun var sett á laggirnar hefur stofnunin unnið að því að fjölga skráðum lyfjum, þ.e. lyfjum sem hafa íslenskt markaðsleyfi og eru markaðssett hér á landi að fengnu viðurkenndu hámarksverði lyfjagreiðslunefndar. Mest áhersla hefur verið lögð á að skráð verði lyf sem eru í mikilli og samfelldri notkun í undanþágukerfi lyfja. Margvíslegum ráðum hefur verið beitt í þessu skyni og upplýsingar birtar með ýmsum hætti til að lyfjafyrirtæki sjái þau lyf sem mestur akkur væri í að fá skráð. Þannig hefur Lyfjastofnun:
 

a) birt upplýsingar í ársskýrslum sínum, þ.e. lista yfir þau lyf sem oftast er ávísað með undanþágulyfseðli.

b) birt á heimasíðu sinni lista yfir lyf sem hafa íslenskt markaðsleyfi og eru ekki markaðssett en notuð í undanþágukerfinu.

c) veitt upplýsingar sem birtar eru í sk. undanþágulyfjalista sem fylgir lyfjaverðskrá en á honum hafa gjarna verið mörg mest notuðu undanþágulyfin.

d) birt mánaðarlega á heimasíðu sinni lista yfir öll ný markaðsleyfi, sem og lista yfir öll lyf sem hafa íslenskt markaðsleyfi, hvort sem þau eru markaðssett eða ekki.

Nú stígur Lyfjastofnun enn eitt skref með birtingu lista yfir undanþágulyf sem mikilvægast er að fá skráð hér á landi, þ.e. almennt séð lyf sem mestu velta í krónum og/eða fjölda pakkninga. Ósk um að slíkur listi yrði birtur kom fram á fundi sem Lyfjastofnun hélt í nóvember sl. með mörgum sem sýnt hafa áhuga á því að fjölga skráðum lyfjum hér á landi. Listinn er unninn upp úr lista yfir undanþágulyf sem seld voru árið 2012. Ekki eru tekin með lyf sem:

a) Lyfjastofnun er kunnugt um að eru ekki lengur í notkun.

b) eru nú þegar markaðssett.

c) fengið hafa íslenskt markaðsleyfi og verða að óbreyttu markaðssett á þessu ári.

d) eru á lista Lyfjastofnunar yfir markaðsleyfislyf sem eru ekki markaðssett en eru notuð í undanþágukerfinu.

Þess má geta að meirihluti vörunúmera í undanþágukerfinu árið 2012 seldist í fáum pakkningum og fyrir óverulegar upphæðir.

Sjá lista

Til baka Senda grein