Fréttir

Lyfjastofnun vekur athygli á breyttum styrkleika Nurofen mixtúru

Nurofen Apelsin mixtúra með virka innihaldsefninu íbúprófen verður markaðssett 1. apríl nk. Lyfið er tvisvar sinnum sterkara en þær íbúprófen mixtúrur sem notaðar hafa verið á Íslandi til þessa.

27.3.2013

Nurofen Apelsin mixtúra verður markaðssett 1. apríl nk.
 
Mixtúran inniheldur virka efnið íbúprófen í styrkleikanum 40 mg/ml og verður fáanleg í lyfjabúðum án lyfseðils. Lyfjastofnun vill vekja sérstaka athygli á því að mixtúran er tvisvar sinnum sterkari en þau lyf sem flutt hafa verið inn gegn undanþágu, fyrst sem Ibuflam 20 mg/ml en síðan sem Nurofen Junior 2% Orange.
 

Lyfjastofnun vill benda læknum sem ávísa lyfinu og hjúkrunarfræðingum og lyfjafræðingum sem leiðbeina um notkun þess í lyfjabúðum og með símaráðgjöf á þennan styrkleikamun. Skráða lyfið verður fáanlegt í lausasölu og mikilvægt er að gengið sé úr skugga um hvaða lyf foreldrar hafa í höndum áður en ráðgjöf er veitt um notkun þess og skammta.

Foreldrum skal bent á mikilvægi þess að lesa fylgiseðilinn með lyfinu.

Til baka Senda grein