Fréttir

Takmarkanir á notkun kódeins til verkjastillingar hjá börnum

Nefnd um áhættumat á sviði lyfjagátar hjá Lyfjastofnun Evrópu (PRAC) hefur lagt til breytingar á notkun kódein-lyfja til verkjastillingar hjá börnum.

18.7.2013

Lagt er til að notkun kódeins til verkjastillingar hjá börnum og unglingum undir 18 ára aldri verði takmörkuð eftir endurskoðun evrópskra lyfjayfirvalda á öryggi lyfsins. Ástæðan fyrir endurskoðuninni er tilkynningar um alvarleg tilfelli öndunarerfiðleika hjá börnum eftir meðhöndlun verkja með lyfjum sem innihalda kódein.
 

PRAC ráðleggur eftirfarandi varðandi notkun kódeins fyrir börn.

 

  • Lyf sem innihalda kódein skal eingöngu nota við í meðallagi miklum, bráðum verkjum hjá börnum eldri en 12 ára og aðeins ef ekki hefur náðst stjórn á verkjunum með öðrum verkjalyfum, t.d. paracetamóli og íbúprófeni.
  • Ekki ætti að nota kódein handa börnum sem eiga við öndunarerfiðleika að stríða vegna þess að slævandi áhrif kódeins á öndun gætu aukist.
  • Kódein má ekki nota handa:
    • Börnum 18 ára og yngri, eftir aðgerð þar sem hálskirtlar eða separ eru fjarlægðir vegna kæfisvefns (obstructive sleep apnoea), vegna þess að þau eru í meiri hættu á öndunarbælingu.
    • Sjúklingum sem þekkt er að hafi hröð CYP2D6 umbrot. Þetta gildir óháð aldri sjúklings.
    • Konur sem hafa barn á brjósti mega ekki nota lyf sem innihalda kódein því kódein getur borist með brjóstamjólk til barnsins.

 

Kódein er verkjastillandi lyf sem umbreytist í morfín í lifrinni. Ensímið CYP2D6 sem umbreytir kódeini í morfín er mismunandi virkt eftir einstaklingum og skýrir hversu mismunandi mikið morfín finnst í blóðinu. Einnig skýrir það bæði verkjastillandi áhrif lyfsins sem og hættu á alvarlegum aukaverkunum líkt og öndunarbælingu.

Af þeim aukaverkanatilkynningum sem borist hafa vegna notkunar kódeins hjá börnum, er þekkt að nokkur þeirra höfðu mjög hröð CYP2D6 umbrot.

Sjá nánar tilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu  
Til baka Senda grein