Fréttir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru

Velferðarráðuneytið staðfestir ákvörðun Lyfjastofnunar í máli sem varðar skyldur lyfjafræðings til að upplýsa sjúkling um val á milli ódýrari samsvarandi samheitalyfja.

18.7.2013

Úrskurður velferðarráðuneytis frá 8. júlí 2013.
 

Velferðarráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Lyfjastofnunar, sem kærð var til ráðuneytisins, þess efnis að skylda lyfjafræðings, við afgreiðslu lyfseðils, skv. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 91/2001, stofnast ekki ef útsöluverð lyfs er innan þeirra marka sem kveðið er á um í greininni, þ.e. 5% frá lægsta verði í viðmiðunarverðskrá.

 Í málinu var deilt um hvernig túlka beri 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 91/2001, með áorðnum breytingum. Greinin sem fjallar um afgreiðslu samheitalyfja í apóteki hljóðar svo:

 Lyfjafræðingi er skylt að upplýsa sjúkling um val milli samsvarandi samheitalyfja sé ávísað á slík lyf og verðmunur er meiri en 5% frá verði ódýrustu samheitalyfja í viðmiðunarverðskrá.

 Kærandi túlkaði ákvæðið þannig að það feli í sér skyldu lyfsala til að upplýsa sjúkling um val á ódýrasta samheitalyfi í viðmiðunarverðskrá séu þær aðstæður fyrir hendi að mismunur milli verðs ávísaðs lyfs og ódýrasta samheitalyfs í viðmiðunarverðskrá sé umfram 5%. Engu skipti þar hvort lyfsalinn veiti sjálfur afslátt eða ekki.

 Lyfjastofnun taldi að efni 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 91/2001 „lúti að því að tryggja sjúklingum ódýrasta verð samheitalyfja hverju sinni“. Að mati stofnunarinnar leggi ákvæðið þá skyldu á herðar lyfjafræðinga að upplýsa sjúkling ef verð ávísaðs lyfs er meira en 5% hærra en verð samheitalyfs, eins og það er tilgreint í lyfjaverðskrá. Lyfjastofnun hélt því m.a. fram í málinu að vegna frelsis lyfjaverslana til lækkunar lyfjaverðs þá sé hugsanlegt að verðlagning lyfjaverslunar á tilteknu lyfi sé lægra en í lyfjaverðskrá lyfjagreiðslunefndar. Það geti leitt til þess að þótt verðmunur tiltekinna lyfja sé meiri en 5% skv. lyfjaverðskrá, sé sá munur minni eða ekki fyrir hendi skv. verðlagningu tiltekinnar lyfjaverslunar. Í slíkum tilfellum stofnist ekki sú skylda sem 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar leggur lyfjafræðingum á herðar. Lyfjastofnun taldi sig því ekki hafa forsendur til að beita sér í málinu.

 Að mati ráðuneytisins verður orðalag ákvæðisins ekki túlkað öðruvísi en svo að orðin „verð“ og „viðmiðunarverðskrá“ í niðurlagi ákvæðisins, eigi aðeins við ódýrasta samheitalyfið sem er nefnt í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 91/2001, en ekki lyfið sem lyfjaávísun hljóðar upp á. Ráðuneytið staðfesti því ákvörðun Lyfjastofnunar í úrskurði sínum.

Til baka Senda grein