Fréttir

Endurskoðun á lyfjum sem innihalda zolpidem

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur hafið athugun á lyfjum sem innihalda zolpidem.

23.7.2013

Nefnd um áhættumat á sviði lyfjagátar hjá Lyfjastofnun Evrópu (PRAC) hefur verið falið að endurskoða ávinning og áhættu við notkun lyfja sem innihalda zolpidem.

Zolpidem er notað sem stuðningsmeðferð í takmarkaðan tíma við langvarandi svefnleysi. Sljóleiki daginn eftir töku lyfs er þekkt áhætta af notkun svefnlyfja, sérstaklega ef sjúklingar hafa ekki náð nógu löngum svefni eftir töku þess. Slíkar viðvaranir eru nú þegar í samþykktum lyfjatextum lyfja sem innhalda zolpidem .

Í júní rannsakaði PRAC tilkynningar um vandamál við akstur eða umferðaróhöpp sjúklinga sem tekið höfðu zolpidem. Nefndin sá ekki ástæðu til þess að breyta strax samþykktum lyfjatextum en velti fyrir sér hvort lægri skammtar af lyfinu myndu hafa minni áhrif á viðbragðsflýti og hæfileika sjúklinga til að stjórna ökutæki daginn eftir töku lyfsins, auk þess hvort minni skammtar væru hentugri fyrir suma sjúklinga.

Niðurstaða PRAC var sú að þörf væri á nákvæmari athugun á gögnum varðandi ávinning og áhættu af notkun lyfsins, þ.á m. gögnum um virkni lyfsins við lægri skammta, áður en að nefndin gæti komist að endanlegri niðurstöðu. Þeirri athugun er enn ólokið.

Þeim sjúklingum sem taka lyf sem innihalda zolpidem er bent á mikilvægi þess að lesa fylgiseðilinn sem fylgir í pakkningu lyfsins. Þeim er jafnframt ráðlagt að hafa samband við sinn lækni eða lyfjafræðing, ef þeir hafa einhverjar spurningar varðandi lyfið. Sjá nánar á vefsíðu EMA.
Til baka Senda grein