Fréttir

Athugasemd vegna umfjöllunar um vöruna DrinkOff í Fréttablaðinu 6. júlí.

Vísað er til umfjöllunar í Fréttablaðinu laugardaginn 6. júlí. Að mati Lyfjastofnunar þarf að gera eftirfarandi athugasemdir við þessa umfjöllun.

9.7.2013

Í umfjöllun um vöruna DrinkOff í Fréttablaðinu laugardaginn 6. júlí sl. kemur fram að Lyfjastofnun hafi gefið leyfi fyrir sölu vörunnar. Vegna þeirrar fullyrðingar vill Lyfjastofnun taka eftirfarandi fram: Lyfjastofnun hefur það hlutverk samkvæmt lyfjalögum nr. 93/1994 að skera úr um hvort einstök efni eða efnasambönd teljist lyf, ef vafi leikur á. Komi sú staða upp að vafi leiki á því hvort vara geti, að teknu tilliti til allra eiginleika hennar, fallið undir skilgreiningu á lyfi og skilgreiningu á vöru sem heyrir undir aðra löggjöf, gilda ákvæði lyfjalaga um hana.

Lyfjastofnun fékk vöruna DrinkOff til umfjöllunar, í samræmi við ofangreint hlutverk. Niðurstaða stofnunarinnar var að innihaldsefni vörunnar, í því magni sem um ræddi, féllu ekki undir ákvæði lyfjalaga. Varan heyrir undir matvælalöggjöf, en niðurstaða Lyfjastofnunar segir hvorki til um hvort varan samræmist þeirri löggjöf, né hvort sala vörunnar sé heimil samkvæmt henni.

Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur einnig fram að varan innihaldi efni sem ekki eru lyfseðilsskyld. Það er vissulega rétt, enda er varan ekki lyf samkvæmt skilgreiningu. Efni og vörur sem falla undir matvælalöggjöf eru ekki lyfseðilsskyld, eðli máls samkvæmt.

Til baka Senda grein