Fréttir

Seldi Ritalin, Ritalin Uno, Mogadon og Rivotril á svörtum markaði

Karlmaður um fimmtugt var 19. júní sl. dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ólöglega lyfjasölu.

24.6.2013

Maðurinn játaði við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa haft lyf í sinni vörslu í sölu- og dreifingarskyni og að hafa staðið að sölu og afhendingu lyfja um eins til tveggja ára skeið.

Í málsatvikalýsingu dómsins segir:

„Hann [ákærði] viðurkenndi að hafa verið að selja lyfin rítalín og rítalín uno fyrir um 200.000 krónur mánaðarlega. Kvaðst hann selja 10 mg töflu af rítalíni á 500 krónur stykkið. Hann kvaðst fá 5 kassa af rítalíni mánaðarlega samkvæmt lyfseðli, en hver kassi innihéldi 30 stykki af 10 mg töflum. Væri hann vanur að selja innihald tveggja kassa. Hann kvaðst selja a.m.k. 60 töflur af rítalíni á mánuði á 500 krónur stykkið. Þá kvaðst ákærði kaupa rítalín uno „á svarta markaðnum“. Hann kvaðst kaupa um 120 40 mg töflur mánaðarlega á 1.000 krónur, en selja þær aftur fyrir 1.500 krónur stykkið. Kvaðst ákærði telja að hann væri að selja um 70 til 80 töflur af rítalín uno á mánuði. Þá kvaðst hann stundum gefa mogadon sem hann ætti“.

Sjá nánar í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómurinn er staðfesting þess að hluti ávísaðra lyfja endar á svörtum markaði með lyf. Lyfjastofnun hvetur því lækna til að gæta hófs við ávísanir lyfja sem þekkt er að eftirspurn er eftir á svörtum markaði og endurmeta stöðugt þörf viðkomandi sjúklings fyrir þau lyf sem honum eru ávísuð. Einnig hvetur Lyfjastofnun lyfjafræðinga í lyfjabúðum til að halda vöku sinni og láta viðeigandi stofnanir vita þegar grunur vaknar um misferli.

Til baka Senda grein