Fréttir

Lyfjastofnun gerir athugasemdir við álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í 52. máli á núverandi þingi, um tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar, sem snerta starfsemi Lyfjastofnunar, gefur ranga mynd af stöðu og rekstri Lyfjastofnunar.

20.9.2013

Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í 52. máli á núverandi þingi, um tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar, sem snerta starfsemi Lyfjastofnunar, gefur ranga mynd af stöðu og rekstri Lyfjastofnunar. Önnur skýrslan var um þróun lyfjakostnaðar en hin um Lyfjastofnun. Staðhæft er í álitinu, án frekari útskýringa, að rekstur stofnunarinnar hafi ítrekað verið umfram fjárheimildir.

Því miður láðist nefndinni að geta þess í áliti sínu að ein megin niðurstaða Ríkisendurskoðunar, er að „Neikvæð fjárhagsstaða Lyfjastofnunar skýrist að stórum hluta af því hvernig hún er fjármögnuð og hvernig tekjur hennar og gjöld eru færð í bókhaldi Ríkisins.“

Ríkisendurskoðun tekur fram í skýrslu sinni að þar sem Lyfjastofnun er svokölluð A-hluta stofnun, þá er sá hluti kostnaðar hennar sem fer umfram útgjaldaheimild fjárlaga bókfærður sem halli. Tekjur stofnunarinnar umfram áætlun fjárlaga eru bókfærðar sem bundið eigið fé. Mikilvægt er að hafa í huga að tekjur stofnunarinnar eru ekki fjárframlög úr ríkissjóði heldur gjöld sem lyfjafyrirtæki greiða fyrir veitta þjónustu og eftirlit. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að í árslok 2011 var uppsafnaður bókfærður halli 216 m.kr. en bundið eigið fé var 313 m.kr. Í raun var eigið fé Lyfjastofnunar því 97 m.kr. Eins og Ríkisendurskoðun bendir á, þá er stofnuninni óheimilt að mæta bókfærðum halla með bókfærðu bundnu eigin fé. „Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að taka til frambúðar á þessari óvenjulegu rekstrarstöðu Lyfjastofnunar og þeim vanda sem fylgir henni. Ekki bætir úr skák að stofnunin fær ekki greitt sérstaklega fyrir ýmis lögbundin stjórnsýsluverkefni sem hún áætlar að kosti um 40 m. kr. á ári.“ (bls. 4)

Svonefndur vandi Lyfjastofnunar er fyrst og fremst sá að fjárlög og bókhaldsreglur heimila ekki stofnuninni að nota þær tekjur sem stofnunin aflar til að veita lögboðna þjónustu og eftirlit. Lyfjastofnun þykir miður að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi ekki tekið mið af þessum staðreyndum í áliti sínu. Hefur Lyfjastofnun því sent

 athugasemdir sínar til forseta Alþingis og nefndarinnar.

Til baka Senda grein