Fréttir

PRAC leggur til að takmarka skuli notkun á blóðlíkilyfjum sem innihalda hýdroxýetýlsterkju (HES innrennslislyf)

Sérfræðinefnd lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, PRAC, hefur lokið endurskoðun á notkun blóðlíkilausna sem innihalda hýdroxýetýlsterkju (HES innrennslislyf/HES).

15.10.2013

Nefndin staðfestir að ekki megi nota HES innrennslislyf hjá sjúklingum með blóðeitrun, sjúklingum sem fá meðferð vegna brunasára og alvarlega veikum sjúklingum, vegna aukinnar hættu á nýrnabilun og dauðsföllum.

HES má áfram nota, samkvæmt áliti nefndarinnar, hjá öðrum sjúklingum sem misst hafa mikið blóð (hypovolaemia) ef ekki nægir að gefa kristallslíki (crystalloids) svo framarlega sem fylgt sé hertum ráðleggingum um notkun og eftirfylgni með sjúklingum.

Áður (í júní s.l.) hafði nefndin komist að þeirri niðurstöðu að markaðsleyfi HES innrennslislyfja skyldi fellt niður tímabundið, þangað til markaðsleyfishafar gætu sýnt fram á sjúklingahóp þar sem meðferð með HES hefði meiri ávinning en áhættu. Sjá frétt Lyfjasofnunar frá 18.7.2013

Við nýlokið endurmat á þessari ákvörðun var litið til frekari gagna og skuldbindinga markaðsleyfishafa og fallist á að lyfjunum yrði haldið á markaði ef þau yrðu notuð samkvæmt mikið hertum ráðleggingum og gegn því að markaðsleyfishafar fylgi áætlunum um lágmörkun áhættu sem meðal annars feli í sér frekari rannsóknir.

Á Íslandi eru þrjú innrennslislyf í þessum flokki (B05AA07) á markaði; HyperHEAS, Tetraspan og Voluven.

Sjá nánar fréttatilkynningu EMA

Til baka Senda grein