Fréttir

PRAC staðfestir að ávinningur af notkun allra tegunda samsettra hormóna getnaðarvarnalyfja sé meiri en áhættan

Sérfræðinefnd lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, PRAC, leggur til að upplýsingar í lyfjatextum fyrir konur og heilbrigðisstarfsfólk, um hættu á blóðtöppum (VTE) og segareki verði bættar.

18.10.2013

Samkvæmt áliti nefndarinnar er ekki ástæða fyrir konur sem notað hafa samsett hormóna getnaðarvarnalyf án vandkvæða að hætta notkun þeirra. Það er samt sem áður ástæða til að fræða konur um hættu á blóðtappamyndun og segareki.

Samkvæmt álitinu er hættan á blóðtöppum og segareki lítil af öllum gerðum hormóna getnaðarvarnalyfja, þó sé lítilsháttar munur eftir því hvaða gerð hormónsins prógesterón þær innihalda. 

Læknar eru hvattir til að meta áhættu kvenna sem þeir ávísa hormóna getnaðarvarnalyfjum með tilliti til þekktra áhættuþátta svo sem reykinga, líkamsþunga, aldurs, mígrenis, fjölskyldusögu um segarek og ef einungis eru liðnar nokkrar vikur frá því að kona ól barn.

Mikilvægt er að konur og læknar séu vakandi fyrir einkennum blóðtappa (VTE) eða segareks sem geta verið mikill verkur eða bólga í fæti, dofi eða máttleysi í andliti eða útlimi, skyndileg andþyngsli án þekktrar ástæðu, ör andardráttur, hósti eða brjóstverkur . Finni konur fyrir einhverju þessara einkenna eiga þær að leita læknis strax.

Upplýsingar um áhættuna og einkenni sem fylgjast þarf með verða nú bættar í fylgiseðlum, sem fylgja í pakkningum með þessum lyfjum. Fylgiseðla er einnig að finna á slóðinni http://www.serlyfjaskra.is/. Upplýsingar verða einnig bættar í lyfjatextum (SmPC) fyrir lækna.

Konur sem hafa spurningar eða áhyggjur varðandi notkun hormóna getnaðarvarnalyfja ættu að bera þær undir sinn lækni í næstu læknisheimsókn.

Sjá fréttatilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu,EMA.

Til baka Senda grein