Fréttir

Lyfjastofnun fær ekkert fjárframlag úr ríkissjóði

Misskilning í opinberri umræðu má væntanlega rekja til ruglings með orðin fjárheimild og fjárframlag.

22.10.2013

Í opinberri umræðu undanfarið hefur því verið haldið fram að hægt sé að draga úr ríkisútgjöldum með því að skera niður framlag ríkissjóðs til m.a. eftirlitsstofnana og hefur Lyfjastofnun verið nefnd í því sambandi.  Staðreyndin er hins vegar sú að Lyfjastofnun fær ekkert fjárframlag úr ríkissjóði og því er af engu að taka.
Af þessu tilefni vill Lyfjastofnun koma eftirfarandi á framfæri.
 

Hlutverk Lyfjastofnunar er skv. lyfjalögum m.a. að annast útgáfu markaðsleyfa fyrir lyf og hafa eftirlit með lyfjaframleiðslu og sölu.  Samkvæmt lögum um lækningatæki hefur Lyfjastofnun einnig það hlutverk að skrá lækningatæki og hafa eftirlit með þeim.

Lyfjastofnun fær ekkert fjárframlag úr ríkissjóði.

Til skýringa á rekstri Lyfjastofnunar eru hér settar fram helstu tölur úr ársreikningi fyrir 2012.Tekjur Lyfjastofnunar árið 2012 voru 549,8 m.kr. sem eru skilgreindar í ríkisbókhaldi sem:

1.       Markaðar tekjur, 211,1 m.kr.

a)      Lyfjaeftirlitsgjald, hlutfall af lyfjaveltu í landinu (114 m.kr.)

b)      Árgjöld markaðsleyfa (84 m.kr.)

c)       Árgjöld lyfja án markaðsleyfa („undanþágulyf“) (13 m.kr.)

2.       Aðrar rekstrartekjur 238,0 m.kr.

Þjónustugjöld (ýmis umsóknargjöld) skv. gjaldskrá, í sumum tilvikum gjaldeyristekjur.

3.       Sértekjur 100,7 m.kr.

Tekjur af sölu þjónustu á samkeppnismarkaði, mest vísindaráðgjöf fyrir Lyfjastofnun Evrópu og því er hér um gjaldeyristekjur að ræða.

4.       Framlag úr ríkissjóði 0,00 m.kr.

 

Rekstrarkostnaður Lyfjastofnunar árið 2012 var 481,6 m.kr.

Stærsti kostnaðarliður í rekstri Lyfjastofnunar eru laun og voru þau 379,7 m.kr. árið 2012.

Tekjuafgangur 2012 var 68,2 m.kr.

Ríkisbókhaldið:  Fjárheimild fjárlaga ≠ framlag úr ríkissjóði

Misskilning í opinberri umræðu má væntanlega rekja til ruglings með orðin fjárheimild og fjárframlag. 

Vegna þess að Lyfjastofnun er A-hluta stofnun er í fjárlögum hvers árs samþykkt fjárheimild fyrir stofnunina.  Fjárheimild fjárlaga má hins vegar ekki rugla saman við fjárframlag úr ríkissjóði. Fjárheimild er sú fjárhæð sem Alþingi ákveður að rekstur Lyfjastofnunar megi kosta, þ.e. þetta er heimild til að reka stofnunina fyrir ákveðna fjárhæð og innheimta gjöld til að standa undir rekstrinum. Þótt fjárlög hvers árs kveði á um fjárheimild Lyfjastofnunar þá fær Lyfjastofnun ekki neitt fjárframlag í sömu fjárlögum, enda er stofnuninni ætlað að innheimta gjöld til að standa undir eigin rekstri.

Í fjárlögum fyrir 2012 var fjárheimild Lyfjastofnunar 409,8 m.kr.  Rekstrarkostnaðurinn reyndist vera 481,6 m.kr. og rekstrartekjur 549,8.  Frávik í rekstrarkostnaði er skilgreint sem halli ef sú upphæð er hærri en fjárheimild í fjárlögum, óháð því hvort tekjur komu á móti útgjöldum. Rekstrartekjur stofnunarinnar umfram rekstrarkostnað eru hins vegar skilgreindar sem bundið eigið fé. Nú er svo komið að uppsafnaður „halli“ nemur um 160 m.kr. og uppsafnað „bundið eigið fé“ um 324 m.kr. þannig að jákvætt eigið fé Lyfjastofnunar er 164 m.kr.

Í skýrslu sinni frá maí 2012 bendir Ríkisendurskoðun á að stofnuninni sé óheimilt að mæta bókfærðum halla með bókfærðu bundnu eigin fé.  „Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að taka til frambúðar á þessari óvenjulegu rekstrarstöðu Lyfjastofnunar og þeim vanda sem fylgir henni.  Ekki bætir úr skák að stofnunin fær ekki greitt sérstaklega fyrir ýmis lögbundin stjórnsýsluverkefni sem hún áætlar að kosti um 40 m. kr. á ári.“ (bls. 4) 

Eins og Ríkisendurskoðun kemur þarna inná, hefur Lyfjastofnun verið gert að taka að sér ýmis stjórnsýsluverkefni án þess að þeim hafi fylgt fjárframlag, hvorki með tekjustofni né framlagi úr ríkissjóði.  Hefur árlegur kostnaður Lyfjastofnunar vegna þessara verkefna verið áætlaður 40 m.kr., en Lyfjastofnun er gert að vinna þessa vinnu án endurgjalds. Þessi vinna er innt af hendi og greidd af tekjum stofnunarinnar.

Þrátt fyrir að tekjur Lyfjastofnunar hafi  staðið undir rekstri hennar og vel það, eins og jákvætt eigið fé staðfestir, er í fjárlögum hvers árs lögð hagræðingarkrafa á stofnunina, sem aðeins skerðir getu hennar til að veita lyfjafyrirtækjunum í landinu lögbundna þjónustu. Þegar fjárheimild stofnunarinnar er ákveðin í fjárlögum, óháð fjölda lögboðinna umsókna/verkefna sem fylgja tekjur og fjöldinn er ekki þekktur fyrir fram getur það einnig skert möguleika stofnunarinnar til að þjónusta lyfjafyrirtækin. Hverjum tekjulið fylgir vinna og því erfitt að sinna verkefnum þegar tekjur hafa náð fjárheimild fjárlaga sem ákveða hver rekstrarkostnaðurinn á að vera óháð fjölda verkefna.

Ein af forsendum þess að lyfjafyrirtæki eins og Actavis, Alvogen og umboðsfyrirtæki markaðsleyfishafa o.fl.  geti rekið sína starfsemi á Íslandi er að Lyfjastofnun sé í stakk búin til að veita þeim lögboðna þjónustu sem er sambærileg þeirri sem systurstofnanir innan EES veita.

Það eru því ekki aðeins 57 starfsmenn Lyfjastofnunar, heldur einnig starfsmenn lyfjafyrirtækja á Íslandi, sem byggja m.a. starfsöryggi sitt á því að fjallað verði um rekstur Lyfjastofnunar út frá réttum forsendum og að umræðan byggi ekki á grundvallar misskilningi.

Til baka Senda grein