Fréttir

Neyðargetnaðarvarnalyf sem innihalda levonorgestrel virka ekki nógu vel hjá konum sem eru yfir 75 kg að líkamsþyngd

Klínískar rannsóknir hafa sýnt að verkun Norlevo, sem inniheldur levonorgestrel, er háð líkamsþyngd.

4.12.2013

Klínískar rannsóknir hafa sýnt að verkun Norlevo, sem inniheldur levonorgestrel, er háð líkamsþyngd. Hjá konum sem eru yfir 75 kg að líkamsþyngd er verkun umtalsvert minni en hjá þeim konum sem eru léttari. Hjá konum sem eru yfir 80 kg að líkamsþyngd hafði Norlevo engin áhrif samanborið við enga meðferð.* Hér á landi er Postinor einnig markaðssett. Það lyf inniheldur einnig levonorgestrel í sömu ráðlögðu skömmtum og Norlevo. Verður þvi að gera ráð fyrir að sömu vandamál varðandi virkni gildi um Postinor.

 
Norlevo (levonorgestrel 1,5 mg) eru ætlað til neyðargetnaðarvarnar innan 72 klst eftir óvarðar samfarir eða ef getnaðarvarnir bila.
 
Virkni Norlevo er meiri eftir því sem styttri tími líður frá samförum. Þegar á heildina er litið sýna klínískar lyfjarannsóknir að Norlevo kemur í veg fyrir þungun í 52-85% tilvika. Nýleg rannsókn hefur hins vegar sýnt að virkni levonorgestrel er verulega minni hjá þeim konum sem eru þyngri en 75 kg og engin þegar líkamsþyngd fer yfir 80 kíló.
 

Rannsóknirnar voru metnar í evrópskum lyfjaskráningarferli og mun markaðsleyfishafi bæta viðvörun við í fylgiseðil þess efnis að lyfið henti ekki sem neyðargetnaðarvörn fyrir konur sem eru yfir 75 kg.

______

* Glasier A, Cameron ST, Blithe D, Scherrer B, Mathe H, Levy D, Gainer E, Ulmann A. Can we identify women at risk of pregnancy despite using emergency contraception? Data from randomized trials of ulipristal acetate and levonorgestrel. Contraception 84 (2011): 363-367. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21920190

Til baka Senda grein