Fréttir

Vandamál sem þarf að leysa

Lyfjastofnun vill benda á að fjárheimild í fjárlögum felur í sér heimild stofnunarinnar til að nota þær tekjur sem hún aflar. Hér er ekki um framlag úr ríkissjóði að ræða. Allar tekjur stofnunarinnar eru sjálfsaflafé.

21.1.2014

Vegna fréttatilkynningar fjármálaráðuneytis um rekstur Lyfjastofnunar dags. 20. janúar vill stofnunin benda á að hækkun fjárheimildar í fjárlögum felur í sér heimild fyrir stofnunina til að nota þær tekjur sem stofnunin aflar. Hér er ekki um framlag úr ríkissjóði að ræða. Allar tekjur stofnunarinnar eru sjálfsaflafé.

Eins og fram hefur komið byrjaði Lyfjastofnun að fullmeta umsóknir um markaðsleyfi árið 2006. Þetta nýsköpunarverkefni var þróað smátt og smátt.

Það er rétt að á árunum 2007-2011 bárust Lyfjastofnun ýmis önnur og aukin verkefni þar sem fyrirtæki nýttu sér ákveðna glufu í gjaldskrá stofnunarinnar. Stofnunin óskaði eftir því að gjaldskráin yrði endurskoðuð, en erfiðlega gekk að fá það samþykkt. Gjaldskráin var loks leiðrétt í maí 2011. Tekið skal fram að sá bókfærði halli sem getið er í fréttatilkynningunni lenti ekki á ríkissjóði.

Eins og kemur fram í yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins  voru fjárheimildir stofnunarinnar hækkaðar úr 205 millj. kr. á árinu 2009 í 417,6 millj. kr. árið 2010, til að færa fjárheimildir fjárlaga í átt að raunverulegri veltu stofnunarinnar. Rétt er að vekja athygli á að hér var ekki um að ræða framlag úr ríkissjóði, heldur hækkun fjárheimildar. Með öðrum orðum, þá var Lyfjastofnun heimilað að nýta meira af þeim tekjum sem stofnunin aflaði.

Lyfjastofnun vinnur rekstraráætlanir sínar í samvinnu við  velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Haustið 2013 samþykkti velferðarráðuneytið rekstraráætlun stofnunarinnar til næstu þriggja ára. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir 578,7 millj. kr. í rekstur stofnunarinnar árið 2014. Fjárheimild samkvæmt fjárlögum er lægri, eða 561 millj. kr. Stofnunin gerði áætlun um að afla 80 millj. kr. sértekna í ár, en í fjárlögum er gerð krafa á stofnunina um að hún afli 108 millj. kr. í sértekjur.

Með hliðsjón af framangreindu þá er raunveruleg hækkun fjárheimildar í fjárlögum fyrir Lyfjastofnun nánast engin og því ekki svigrúm til að ráða fleiri sérfræðinga eins og fjármálaráðuneytið heldur fram. 

Nettóstaða Lyfjastofnunar við ríkissjóð í ársbyrjun 2013 var 409 millj kr. inneign. Í raun er um að ræða vaxtalaust lán til ríkissjóðs. Staðan er svipuð í ár.

Í fréttatilkynningunni segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra:  „Það er mjög spennandi að kanna hvort Lyfjastofnun hafi möguleika á að veita fyrirtækjum í lyfjaiðnaði frekari þjónustu, en tryggja verður að til grundvallar auknum umsvifum liggi traustar rekstraráætlanir til næstu ára".  Lyfjastofnun tekur heilshugar undir sjónarmið ráðherra.

Mikilvægt er að veita lyfjafyrirtækjum frekari þjónustu í takt við aukin umsvif þeirra á Íslandi. Í grein í Fréttablaðinu 20.janúar, vakti forstjóri stofnunarinnar athygli á mikilvægi þess að horfa heildstætt á með hvaða hætti yfirvöld styðja nýsköpun á Íslandi. Erfitt hefur verið fyrir Lyfjastofnun að sinna slíkum verkefnum þar sem ekki hefur verið heimilt að nýta tekjur stofnunarinnar umfram fjárheimild fjárlaga.

Vandamálið í hnotskurn er sú óvenjulega rekstrarstaða sem stofnunin býr við og Ríkisendurskoðun hefur bent á í skýrslu sinni frá 2012.  Þetta er vandamálið sem þarf að leysa.

Til baka Senda grein