Fréttir

Endurskoðun þýðinga - ATC-flokkar

Innan Lyfjastofnunar er nú unnið að endurskoðun á þýðingum í ATC-flokkunarkerfinu. Um er að ræða stórt verkefni en flokkar og undirflokkar kerfisins skipta þúsundum.

23.5.2014

Ástæður þess að ráðist var í þessa heildarendurskoðun eru m.a. þær að þýðingar hafa tekið breytingum í gegnum tíðina og misræmi skapast milli þýðinga í lyfjatextum og þýðinga á ATC-flokkum og einnig innan nýrri og eldri flokka.
Verkið er unnið í litlum skrefum en breyttar þýðingar birtast jafnharðan í ATC-flokkunarkerfi Sérlyfjaskrár. T.d. má nú sjá að heiti flokka í efri þrepum kerfisins eru skrifuð með hástöfum þar sem yfirferð er lokið, til samræmis við ATC-venju. Í fyrstu umferð eru fjögur efstu þrepin endurskoðuð og mun neðsta þrepið vera tekið sérstaklega í lokin.
Við endurskoðunina er fylgt nokkrum meginreglum. Ef nauðsynlegt er talið að hafa erlent heiti í sviga á eftir íslensku heiti þá er það nú á ensku í stað latínu áður. Reynt er þó að halda slíkum aukaútskýringum í lágmarki. Einnig hefur verið lögð á það áhersla að þýða enskuna beint í heiti flokka í stað þess að túlka á íslensku hvað átt er við eins og stundum var gert áður. Með þessu móti er minni hætta á að vandræði skapist ef ný lyf koma undir flokkinn seinna meir. Að lokum má nefna að reynt er að halda samræmi á þýðingum milli flokka eftir því sem frekast er unnt eins og gildir um aðra staðlaða lista.

Nokkur dæmi um breytingar sem nú hafa verið innfærðar í ATC-þýðingu eru að „systemic use“ er nú þýdd sem altæk notkun en vegna þess hve nýlega var byrjað að nota þessa þýðingu er enskan höfð með í sviga. Lyf sem óvirkja efni í blóðrás eða öðrum líkamsvessum eru nú kölluð tálmar en hemlar verka á ensím, blokkar á viðtaka og lokar á göng. „Glucocorticoids“ eru nú sykursterar og „mineralcorticoids“ saltsterar. Antifungals eru sveppalyf og antimycotics sveppasýkingalyf. „Disinfectants“ og „antiseptics“ eru hvort tveggja þýdd sem sótthreinsandi lyf en enska orðið haft í sviga. Hið sama gildir um „chemotherapeutics“ og „antibiotics“ í D-flokki en bæði heitin eru þýdd sem sýklalyf.

Breyttar þýðingar á ATC-flokkum í kafla 5.1 í samantektum á eiginleikum lyfja (SmPC) skal uppfæra samhliða öðrum textabreytingum og nýir textar ekki sendir Lyfjastofnun eingöngu vegna þeirra.

Til baka Senda grein