Fréttir

Athugasemdir frá Lyfjastofnun vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um lyfjaskort

Lyfjastofnun leggur mikla áherslu á að markaðsleyfishafar lyfja eða íslenskir umboðsmenn þeirra láti stofnunina vita ef fyrirséð er að  skortur verði á lyfjum.

11.6.2014

Lyfjastofnun leggur mikla áherslu á að markaðsleyfishafar lyfja eða íslenskir umboðsmenn þeirra láti stofnunina vita með eins löngum fyrirvara og mögulegt er, ef fyrirséð er að tímabundinn skortur á lyfi eða afskráning lyfs geti haft veruleg áhrif. Það gerir Lyfjastofnun kleift að bregðast við og nota þau tæki sem stofnunin hefur til að koma í veg fyrir vandamál, eftir því sem kostur er.

Lyfið Targretin:

Krabbameinslyfið Targretin er pantað til landsins eftir þörfum vegna þess að lyfið er afar lítið notað.  Aðeins tveir skammtar hafa verið pantaðir á þessu ári og það var í janúar.  Lyfið mun koma til landsins á morgun, 12. júní.  

Af gefnu tilefni skal tekið fram að Lyfjastofnun hefur frá árinu 2012 óskað eftir því við markaðsleyfishafa lyfsins að lyfið verði markaðssett hérlendis.

Lyfið Zofran:

Samkvæmt upplýsingum frá GlaxoSmithKline, markaðsleyfishafa lyfsins Zofran, er skortur á Zofran 8 mg töflum vegna þess að mistök urðu við pöntun lyfsins. Góðar birgðir eru hins vegar til af Zofran 4 mg töflum og sjúklingar geta fengið tvær töflur í stað einnar. Landspítalinn hefði verið upplýstur um þetta. Von er á Zofran 8 mg töflum til landsins 20. júní n.k.

Zofran inniheldur virka efnið ondansetron. Tvö samheitalyf Zofran 8 mg eru markaðssett á Íslandi.

Aðgerðir Lyfjastofnunar:

Fyrir tilstilli Lyfjastofnunar birta lyfjaheildsölur lista á heimasíðu sinni yfir þau lyf sem eru ófáanleg um lengri eða skemmri tíma. Ástæður fyrir því að lyf skortir geta verið margvíslegar. Hafa ber í huga að lyfjaskortur er ekki fyrirbæri sem bundið er við Ísland. Tímabundinn eða langvarandi lyfjaskortur kemur upp á miklu stærri mörkuðum, s.s. Bandaríkjunum og Kanada og er einnig vel þekktur á öðrum litlum mörkuðum á borð við Noreg og Svíþjóð, svo dæmi séu nefnd.

Lyfjastofnun bendir á að löggjöf um lyfjaskráningar á Íslandi er hin sama og í öðrum EES ríkjum. Löggjöfin er fyrst og fremst neytendaverndarlöggjöf og ætlað að tryggja að lyf hér á landi uppfylli settar kröfur um gæði, öryggi og verkun.

Að lokum má geta þess að Lyfjastofnun beitir sér stöðugt fyrir því að hér á landi séu skráð þau lyf sem eru í samfelldri og umtalsverðri notkun. Hins vegar gildir hér á landi sem í svo mörgum öðrum löndum að ekki eru öll lyf skráð og ekki eru öll skráð lyf alltaf fáanleg. Fyrirkomulag við afgreiðslu beiðna vegna undanþágulyfja hér á landi gerir hins vegar að verkum að raunverulegur lyfjaskortur er ekki algengur.

Til baka Senda grein