Fréttir

Breyttar leiðbeiningar um umsóknir um lækkun árgjalda

Fyrir árið 2015 verður miðað við veltu hvers markaðsleyfisnúmers árið 2014 en ekki veltu lyfsins í heild sinni

8.1.2015

Lyfjastofnun hefur breytt leiðbeiningum um umsóknir um lækkun árgjalda. Fyrir árið 2015 verður miðað við veltu hvers markaðsleyfisnúmers árið 2014 en ekki veltu lyfsins í heild sinni (öll lyfjaform og styrkleikar). Viðmiðunarvelta verður 360.000 kr. (heildsöluverð án virðisaukaskatts). Sem fyrr kemur lækkun árgjalds því aðeins til álita að nauðsynlegt sé að mati Lyfjastofnunar að hafa viðkomandi lyfjaform/styrkleika á markaði. Þá þarf lyfjaformið/styrkleikinn að hafa verið á markaði allt næstliðið ár, sem og að ekki sé markaðssett hér á landi lyf sem komið getur í stað þess lyfs sem sótt er um lækkun árgjalds fyrir.

Sem fyrr verður árgjald lækkað um 75% ef fallist verður á umsókn um lækkun.

Sjá uppfærðar leiðbeiningar og umsóknareyðublað.

Hér er um verulega breytingu að ræða á þeim forsendum sem eru fyrir lækkun árgjalds. Lyfjastofnun mun síðar á árinu ákveða hvort sama fyrirkomulag verður viðhaft árið 2016.

Lyfjastofnun áréttar að ekki eru greidd árgjöld vegna lyfja sem hafa íslenskt markaðsleyfi á grundvelli miðlægs markaðsleyfis og skal því ekki sótt um lækkun árgjalda vegna slíkra lyfja.

Til baka Senda grein