Fréttir

Í tilefni fréttaflutnings um sölu Orasal (salicinium) á Íslandi.

Lyfjastofnun hafa borist upplýsingar um að varan Orasal (salicinium) sé seld á Íslandi. Hægt er að kaupa vöruna á sölusíðum á vefnum og er hún markaðssett sem fæðubótarefni undir vörumerkinu Perfect Balance.

5.3.2015

Fram kemur á vefsíðum þar sem varan er seld að hún virki á ónæmiskerfið og hafi áhrif á gerjandi frumur, bakteríur og veirur.  Einnig kemur fram á ýmsum vefmiðlum og bloggsíðum að varan sé gagnleg í meðferð við ýmsum gerðum krabbameina.

Efni sem sögð eru koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum og dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum eru skilgreind sem lyf, sbr. 5. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.  Í 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga segir ennfremur að einungis sé heimilt að flytja til landsins, selja eða afhenda lyf að fengnu markaðsleyfi.  Engin vara sem ber nafnið Orasal og inniheldur efnið salicinium hefur hlotið markaðsleyfi á Íslandi.  Varan Orasal, sem sögð er koma að gagni í meðferð sjúkdóma, er því ekki löglega markaðssett vara hér á landi.

Til að lyf fái markaðsleyfi þurfa m.a. að liggja fyrir gögn úr klínískum rannsóknum sem sýna fram á að lyf komi að gagni í meðferð gegn sjúkdómi eða sjúkdómseinkennum.  Lyfjastofnun er ekki kunnugt um að slíkar rannsóknir hafi verið gerðar á vörunni Orasal eða efninu salicinium.  Af framangreindum ástæðum vekur Lyfjastofnun athygli sjúklinga á því að engar sannanir eru fyrir því að  varan Orasal (salicinium) gagnist í lækningaskyni.

Til baka Senda grein