Fréttir

Vörur, sem sagðar eru hafa mögulega verkun gegn sjúkdómum, eru boðnar til sölu á samfélagsmiðlum og í kynningum í heimahúsum

Lyfjastofnun hvetur fólk til að vera gagnrýnið á vörur sem sagðar eru hafa mögulega verkun gegn sjúkdómum.

12.3.2015

Vegna umræðu að undanförnu um vörur sem sagðar eru hafa mögulega verkun gegn sjúkdómum vill Lyfjastofnun benda á eftirfarandi:

Vörur sem ekki hafa fengið markaðsleyfi sem lyf hér á landi og heyra undir lög um matvæli og sagðar eru hafa mögulega verkun gegn ýmsum sjúkdómum eru, að því er virðist, boðnar til sölu hér á landi t.d. á samfélagsmiðlum og í kynningum í heimahúsum.

Lyfjastofnun bendir á að skilgreining lyfjalaga á hugtakinu lyf nær einnig til efna eða efnasamsetninga sem sögð eru búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum eða dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum.

Lyfjastofnun vill eindregið hvetja fólk til að hafa samráð við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk áður en það prófar slíkar vörur svo koma megi í veg fyrir að þær hafi áhrif á venjubundna læknismeðferð.

Lyfjastofnun hvetur ennfremur til þess að fólk skoði kynningar og auglýsingar á slíkum vörum með gagnrýnum augum. Þó svo að vísað sé til þess að vara hafi verið rannsökuð af vísindamönnum er það ekki það sama og að rannsóknir hafi sýnt fram á virkni eða öryggi vörunnar.

Sjá frétt Embættis landlæknis um hjálækningar
Til baka Senda grein