Fréttir

Ný lyf á markað 1. september 2015

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. september 2015

1.9.2015

Cortiment, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur 9 mg af búdesóníði. Hjálpaefni með þekkta verkun er laktósa og lesitín úr sojaolíu. Lyfið er ætlað fullorðnum einstaklingum til þess að innleiða sjúkdómshlé hjá sjúklingum með væga eða í meðallagi virka sáraristilbólgu (ulcerative colitis) þegar 5-ASA meðferð nægir ekki. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Eplerenon Actavis, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 25 mg eða 50 mg af eplerenóni. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósaeinhýdrat. Lyfið er ætlað til notkunar til viðbótar hefðbundinni meðferð, þ.m.t. með beta-blokkum, til að draga úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og dauðsföllum vegna þeirra hjá sjúklingum í stöðugu ástandi, með starfstruflun í vinstri slegli og klínísk einkenni hjartabilunar eftir nýlegt hjartadrep. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Esomeprazole Alvogen, magasýruþolnar töflur. Hver tafla inniheldur esómeprazólmagnesíum tvíhýdrat sem jafngildir 40 mg af esómeprazóli. Lyfið er ætlað við meðferð á bakflæðissjúkdómi í vélinda og við sármyndandi bólgu vegna bakflæðis í vélinda. Langtímameðferð eftir meðferð í bláæð til að koma í veg fyrir endurtekna blæðingu í ætisárum og við Zollinger Ellison heilkenni. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Harvoni, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 90 mg ledípasvír og 400 mg sófosbúvír. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósa. Lyfið er ætlað til meðferðar gegn langvinnri lifrarbólgu C (CHC) hjá fullorðnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í smitsjúkdómum og sérfræðinga í meltingarfærasjúkdómum með sérþekkingu á lifrarsjúkdómum.

Levosert, leginnlegg. Leginnleggið inniheldur 52 mg af levónorgestreli. Upphaflegur losunarhraði levónorgestrels er u.þ.b. 20 míkróg. á sólarhring sem minnkar niður í u.þ.b. 12 míkróg. á sólarhring eftir 3 ár. Lyfið er ætlað sem getnaðarvörn í allt að þrjú ár. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Plasmalyte Glucos. innrennslislyf, lausn.  Lausnin inniheldur glúkósu 50 mg/ml ásamt Na, K, Mg, Cl , asetati og glukonat jónum. Lyfið er ætlað sem vökvauppbót með kolvetnum (t.d. eftir bruna, höfuðáverka, beinbrot, sýkingu, og ertingu lífhimnu eða sem vökvauppbót í skurðaðgerð, við vægri til miðlungs alvarlegri efnaskiptablóðsýringu og einnig við skert laktatefnaskipti. Lyfið er sjúkrahúslyf.

Sovaldi, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 400 mg sófosbúvír. Sovaldi er ætlað til notkunar ásamt öðrum lyfjum til meðferðar gegn langvinnri lifrarbólgu C (CHC) hjá fullorðnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í smitsjúkdómum og sérfræðinga í meltingarfærasjúkdómum með sérþekkingu á lifrarsjúkdómum.

Tiacur, stungulyf, lausn. Hver ml inniheldur 25 mg eða 50 mg af tíamínhýdróklóríði. Lyfið er ætlað við tíamínskorti, t.d. vegna vanfrásogs, lystarleysis eða áfengisfíkn. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Sjá lista

Til baka Senda grein