Fréttir

Viðhorf samstarfsaðila og viðskiptavina til Lyfjastofnunar

Í ágúst og september sl. lét Lyfjastofnun gera tvær viðhorfskannanir, aðra meðal viðskiptavina sinna, hina meðal samstarfsaðila.

2.11.2015

Markmið kannananna var að fá sýn viðskiptavina og samstarfsaðila á Lyfjastofnun og bera upplifun þeirra saman við upplifun starfsfólks á ímynd stofnunarinnar, sem mæld var í könnuninni „Stofnun ársins 2015“.

Kannanirnar voru annars vegar gerðar meðal viðskiptavina sem starfa hjá lyfjafyrirtækjum og öðrum eftirlitsþegum (þ.m.t. lyfjaframleiðsla, heildsala, apótek, heilbrigðsstofnanir) og hins vegar meðal samstarfsaðila úr stjórnsýslunni (ráðuneyti, aðrar stofnanir). Kannanirnar voru sendar út af kannana- og rannsóknafyrirtækinu Zenter á um 450 netföng tengiliða stofnunarinnar. Svarhlutfall meðal viðskiptavina var 65,4% og meðal samstarfsaðila 60%.

Í könnununum var spurt um viðhorf svarenda til þjónustu stofnunarinnar, svartíma erinda, vinnubragða starfsmanna, afstöðu til stofnunarinnar og ímyndar.

Viðbrögð svarenda voru frá því að vera „mjög sammála“ fullyrðingunni sem gaf einkunnina 5, í það að vera „mjög ósammála“ sem gaf einkunnina 1. Í könnunum sem styðjast við þennan kvarða, svo sem „Stofnun ársins“, og mæla viðhorf, eru einkunnir sem eru 4,20-5,00 kallaðar styrkleikabil, einkunnir á bilinu 3,70-4,19 starfshæft bil og einkunnir sem eru lægri en 3,69 aðgerðabil.

Niðurstöður könnunar á meðal viðskiptavina  
Spurning: Meðaltal
Erindi mín eru afgreidd og/eða þeim svarað 4,25
Ég er ánægð(ur) með úrlausnartíma mála/erinda hjá Lyfjastofnun 3,54
Ég er ánægð(ur) með úrlausn mála/erinda hjá Lyfjastofnun 3,81
Þegar á heildina er litið tel ég vinnubrögð starfsmanna stofnunarinnar fagleg 4,11
Þegar á heildina er litið er afstaða mín til Lyfjastofnunar jákvæð 3,89
Þegar á heildina er litið tel ég Lyfjastofnun vera trausta stofnun 4,09

 

Niðurstöður könnunar á meðal samstarfsaðila  
Spurning: Meðaltal
Ég á góð samskipti við starfsfólk Lyfjastofnunar 4,44
Þegar á heildina er litið tel ég vinnubrögð starfsmanna stofnunarinnar fagleg 4,16
Lyfjastofnun veitir mér fullnægjandi upplýsingar á hverjum tíma 4,13
Þegar á heildina er litið er afstaða mín til Lyfjastofnunar jákvæð 4,21
Þegar Lyfjastofnun ber á góma er sú umræða yfirleitt jákvæð 3,79
Þegar á heildina er litið tel ég Lyfjastofnun vera trausta stofnun 4,15

 

Niðurstöður voru kynntar starfsfólki á starfsdegi Lyfjastofnunar 25. september sl. og sýndi samanburður spurninga sem eru samanburðarhæfar við niðurstöður úr stofnun ársins að; 

  • starfsfólk telur afstöðu og umræðu viðskiptavina og samstarfsaðila um stofnunina neikvæðari en svör þeirra gefa til kynna
  • starfsfólk telur að Lyfjastofnun sé talin vera traust stofnun í meiri mæli en meðaltal viðskiptavina og samstarfsaðila.

 

Spurningar sem eru samanburðarhæfar við könnunina stofnun ársins Meðaltal starfsfólks Meðaltal viðskiptavina Meðaltal samstarfsaðila
Þegar Lyfjastofnun ber á góma er sú umræða yfirleitt jákvæð 3,49 3,79 N/A
Þegar á heildina er litið er afstaða mín til Lyfjastofnunar jákvæð 3,78 4,21 3,89
Þegar á heildina er litið tel ég Lyfjastofnun vera trausta stofnun 4,17 4,15 4,09
Til baka Senda grein