Fréttir

Rafrænir undanþágulyfseðlar – niðurfelling undanþágulista

Frá 1. desember nk. fellur undanþágulisti niður vegna útgáfu rafrænnar undanþágulyfjaverðskrár.

20.11.2015

Rafrænir undanþágulyfseðlar
Frá og með 1. desember nk. geta læknar sótt um leyfi til notkunar lyfja sem ekki eru markaðssett á Íslandi (undanþágulyfja) með rafrænum hætti til Lyfjastofnunar. Rafræna kerfið mun ná yfir lyf sem verið hafa í notkun í undanþágukerfinu á þessu ári og verða tilgreind í sérstakri undanþágulyfjaverðskrá sem lyfjagreiðslunefnd gefur út um leið og verðskrá skráðra lyfja. Jafnframt fellur sérstakur undanþágulisti niður. Rafræna undanþágulyfseðlakerfið mun fyrst um sinn ná yfir lyf sem ávísað er á einstaklinga.

Kerfisupplýsingar
Rafræn lyfseðlakerfi geta tengst undanþágukerfinu. Kerfið er nú þegar innbyggt í nýjustu útfærslu Sögukerfisins og gert er ráð fyrir því að læknar geti einnig ávísað undanþágulyfjum rafrænt gegnum vefgátt á vefsíðu Embættis landlæknis. Tæknilegar upplýsingar um tengingar við kerfið veitir Ingi Steinar Ingason hjá Embætti landlæknis.

Lyfseðlagáttin
Rafrænir undanþágulyfseðlar sem hafa verið samþykktir hjá Lyfjastofnun birtast apótekum í lyfseðlagáttinni á sama hátt og aðrir rafrænir lyfseðlar.

Pappírsundanþágulyfseðlar.
Undanþágulyfseðlar á pappír verða notaðir áfram samhliða rafrænu seðlunum, t.d. fyrir lyf sem ekki hefur verið sótt um áður eða eru ekki komin í undanþágulyfjaverðskrána, fyrir lyf sem ekki er ávísað á sjúkling og af þeim læknum sem ekki hafa tengst rafræna kerfinu. Fylla þarf út báðar hliðar umsóknareyðublaðs fyrir allar pappírsumsóknir. Þeim lyfjum sem ekki eru komin í undanþágulyfjaverðskrána verður bætt í hana smám saman og þaðan í frá verður hægt að ávísa þeim með rafrænum undanþágulyfseðli.

Ábyrgð læknis vegna undanþágulyfja
Læknar sem sækja um notkun á undanþágulyfi þurfa eftir sem áður að rökstyðja slíka beiðni. Þeir taka á sig sérstaka ábyrgð á undanþágulyfjum, svo sem verið hefur hingað til. Lyf á rafrænni undanþágulyfjaverðskrá hafa ekki verið metin af Lyfjastofnun og þeim fylgja ekki upplýsingar á íslensku til notenda.

Gildistími áður útgefinna undanþágulyfseðla fyrir lyf á undanþágulista
Til þess að koma í veg fyrir óhagræði fyrir þá sjúklinga sem eiga lyfseðla á lyf á undanþágulista sem gefnir voru út fyrir 1. desember 2015, þ.e áður en undanþágulistinn féll niður munu þeir lyfseðlar gilda þar til þeir hafa verið fullnýttir eða runnir út á tíma (gildistíminn er 12 mánuðir). Listi yfir þessi lyf mun vera sendur til lyfjabúða en er einnig að finna hér. Ef þessum lyfjum er ávísað með pappírsundanþágulyfseðli frá og með 1. desember 2015 er óheimilt að afgreiða hann nema að fengnu samþykki Lyfjastofnunar. Lyfjafræðingar í apótekum verða því að gæta sérlega vel að útgáfudagsetningu undanþágulyfseðils á pappír þegar ávísað er undanþágulyfi sem var á undanþágulista.

 

Til baka Senda grein