Fréttir

Ný lyf á markað 1. febrúar 2016

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. febrúar 2016.

9.2.2016

Benzylpenicillin Panpharma, stungulyfs-/innrennslisstofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur benzýlpenicillinnatríum 0,6 g (1 milljón a.e.), 1,2 g (2 milljónir a.e.) eða 3 g (5 milljónir a.e.). Lyfið er ætlað við sýkingum af völdum baktería sem eru næmar fyrir benzýlpenicillíni. Lyfið er sjúkrahúslyf.
 

Bortezomib W&H, stungulyfsstofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 3,5 mg af bortezomibi sem mannitólbórester. Lyfið er ætlað til meðferðar á mergæxlum og möttulfrumueitlaæxlum í einlyfjameðferð eða í samsettri meðferð. Lyfið er sjúkrahúslyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum. Markaðssetning á Íslandi er háð því að Lyfjastofnun hafi staðfest að sérstök skilyrði er varða öryggi og verkun við notkun lyfsins séu uppfyllt.

Cefotaxim Villerton, stungulyfsstofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 750 mg, 1 g eða 1,5 g af cefotaxími. Lyfið er ætlað við alvarlegum sýkingum af völdum baktería sem eru næmar fyrir cefotaxími. Lyfið er sjúkrahúslyf.

Cinacalcet WH, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 30 mg, 60 mg eða 90 mg af cinacalceti sem hýdróklóríð. Lyfið er ætlað til meðferðar á afleiddri kalkvakaofseytingu (secondary hyperparathyroidism [HPT]) hjá sjúklingum með nýrnasjúkdóm á lokastigi, sem eru á skilunarmeðferð. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Ciprofloxacin Villerton, innrennslislyf, lausn. Hver ml inniheldur 2 mg af ciprofloxacini. Lyfið er ætlað til meðferðar við sýkingum í neðri öndunarvegi af völdum Gram-neikvæðra baktería, langvinnri eyrnabólgu með ígerð, þvagfærasýkingum, sýkingum í meltingarvegi og kviðarholi og fyrirbyggjandi við sýkingum hjá sjúklingum með daufkyrningafæð. Lyfið er sjúkrahúslyf.

Cotellic, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur cobimetinib hemifúmarat sem jafngildir 20 mg af cobimetinibi. Lyfið er ætlað til notkunar ásamt vemurafenibi til meðferðar fullorðinna sjúklinga við sortuæxli sem er óskurðtækt eða með meinvörpum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum.

Enterisol Ileitis vet. Frostþurrkað lyf og leysir fyrir mixtúru, dreifa. Lyfið er bóluefni og ætlað til virkrar ónæmingar hjá svínum þriggja vikna og eldri til að draga úr þarmaskemmdum vegna sýkingar af völdum Lawsonia intracellularis og til að draga úr breytileika í vexti og koma í veg fyrir að dragi úr þyngdaraukningu í tengslum við sjúkdóminn. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Ikervis. Augndropar, fleyti. Hver ml inniheldur 1 mg af cyclosporini. Hjálparefni með þekkta verkun er cetalkóníumklóríð. Lyfið er ætlað til meðferðar við alvarlegri glærubólgu hjá fullorðnum sjúklingum með augnþurrk sem ekki hefur batnað eftir meðferð með táralíki. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í augnlækningum.

IMBRUVICA. Hörð hylki. Hver hart hylki inniheldur 140 mg af ibrutinibi. Lyfið er ætlað fullorðnum sjúklingum með möttulfrumu eitlaæxli (MCL), langvinnt eitilfrumuhvítblæði (CLL) og með Waldenström risaglóbúlínblæði (Waldenström‘s macroglobulinaemia (WM)). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum.

Picato. Hlaup. Hvert g inniheldur 150 míkróg eða 500 míkróg af ingenol mebutati. Lyfið er ætlað til meðferðar á húð við geislunarhyrningu (actinic keratosis) án ofþykknunar hornhúðar (nonhyperkeratotic) og ofvaxtar (nonhypertrophic). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Praluent. Stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver einnota áfylltur lyfjapenni inniheldur 75 mg eða 150 mg af alirocumabi í 1 ml lausn. Lyfið er ætlað, til viðbótar við ákveðið mataræði, til notkunar hjá fullorðnum með frumkomna kólesterólhækkun í blóði (arfblendna ættgenga kólesterólhækkun og kólesterólhækkun sem ekki er arfgeng) eða blandaða blóðfituröskun. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Pregabalin Alvogen. Hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur75 mg eða 150 mg af pregabalini. Lyfið er notað til meðferðar á útlægum og miðlægum taugaverkjum hjá fullorðnum, sem viðbótarmeðferð við flogaveiki með staðflogum, með eða án síðkominna alfloga og til meðferðar á almennri kvíðaröskun hjá fullorðnum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Pregabalin Sandoz GmbH. Hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 25 mg, 75 mg 150 mg 225 mg eða 300 mg af pregabalini. Lyfið er ætlað við flogaveiki með staðflogum, með eða án síðkominna alfloga og til meðferðar á almennri kvíðaröskun hjá fullorðnum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Spasmium vet. Hver ml inniheldur 500 mg af metamizólnatríumeinhýdrati og 4 mg af hyoscínbútýlbrómíði. Hjálparefni með þekkta verkun er fenól. Lyfið er ætlað hestum, nautgripum, svínum og hundum við krömpum eða viðvarandi aukinni spennu í sléttum vöðvum í meltingarveginum eða í þvag- og gallvegum og sem stuðningsmeðferð við bráðum niðurgangi. Lyfið er lyfseðilsskylt og má eingöngu nota handa dýrum þegar dýralæknir gefur það sjálfur.

Xyrem. Mixtúra, lausn. Hver ml inniheldur 500 mg af hydroxybutyric sýru. Lyfið er ætlað til meðferðar við svefnflogum (narcolepsy) með máttleysisköstum (cataplexy) hjá fullorðnum sjúklingum. Markaðssetning á Íslandi er háð því að Lyfjastofnun hafi staðfest að sérstök skilyrði er varða öryggi og verkun við notkun lyfsins séu uppfyllt. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Hámarksmagn sem má ávísa hverju sinni er 2 x 180 ml.

Sjá lista

Til baka Senda grein