Fréttir

Ný lyf á markað 1. maí 2016

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markaði 1. maí 2016

3.5.2016

Abraxane, innrennslisstofn, dreifa. Hvert hettuglas inniheldur 100 mg af paclitaxeli á formi albúmínbundinna nanóagna. Lyfið er ætlað sem einlyfjameðferð til meðferðar á brjóstakrabbameini með meinvörpum, í samsettri meðferð með gemcítabíni til meðferðar við kirtilfrumukrabbamein í brisi ásamt meinvörpum og með karbóplatíni við lungnakrabbameini sem ekki er af smáfrumugerð. Lyfið er sjúkrahúslyf og ávísun þess bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum.

Cinacalcet Sandoz, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 30 mg, 60 mg eða 90 mg af cinacalceti (sem hýdróklóríð). Lyfið er ætlað til meðferðar á afleiddri kalkvakaofseytingu (secondary hyperparathyroidism [HPT]) og til að draga úr blóðkalsíumhækkun hjá sjúklingum með krabbamein í kalkkirtli eða frumkomna kalkvakaofseytingu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Esmya, töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg úlipristal asetati. Lyfið er ætlað til meðferðar á meðalsvæsnum til svæsnum einkennum vöðvaæxlis í legi hjá fulltíða konum á barneignaraldri. Markaðssetning á Íslandi er háð því að Lyfjastofnun hafi staðfest að sérstök skilyrði er varða öryggi og verkun við notkun lyfsins séu uppfyllt. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í kvensjúkdómum.

Giotrif, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 20 mg, 30 mg, 40 mg eða 50 mg af afatinibi (sem dimaleat). Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað við staðbundnu lungnakrabbameini sem er ekki af smáfrumugerð (non-small cell lung cancer (NSCLC)). Lyfið er undir sérstöku eftirliti (merkt svötum þríhyrningi) til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og ávísun þess bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum.

Glucosamin LYFIS, mixtúruduft, lausn í skammtapokum.  Hver skammtapoki inniheldur 1500 mg af glucosaminsúlfati sem samsvarar 1.178 mg af glucosamini. Hjálparefni með þekkta verkun eru natríum og  sorbitól. Lyfið er ætlað til að draga úr einkennum vægrar til meðalsvæsinnar slitgigtar í hné. Lyfið er selt án lyfseðils.

Metojectpen, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapennum. Lyfjapennarnir innihalda frá 7,5 mg upp í 30 mg af metótrexati. Hjálparefni með þekkta verkun er natríum. Lyfið er ætlað við iktsýki, fjölliðagigt, barnaliðagigt, alvarlegum þrálátum psoriasis og alvarlegri psoriasis liðbólgu. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum og húðsjúkdómum.

Otezla, filmuhúðaðar töflur. Upphafsmeðferðarpakkning inniheldur 10 mg, 20 mg og 30 mg töflur. Viðhaldsmeðferðarpakkning inniheldur 30 mg töflur. Töflurnar innihalda apremilast. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til meðferðar á miðlungsmiklum og verulegum langvinnum skellusóra og sóraliðagigt eitt sér eða í samsettri meðferð með sjúkdómstemprandi gigtarlyfjum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti (merkt svötum þríhyrningi) til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur erum að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum og húðsjúkdómum.

Phenoleptil, töflur. Hver tafla inniheldur 25 mg af fenóbarbitali. Lyfið er ætlað hundum til að fyrirbyggja krampa vegna flogaveiki. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Praxbind, stungulyf/innrennslislyf, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 2,5 g af idarucizumabi í 50 ml. Hjálparefni með þekkta verkun eru natríum, og  sorbitól. Lyfið er sértækt viðsnúningslyf fyrir dabigatran og er ætlað fullorðnum sjúklingum sem eru á meðferð með Pradaxa (dabigatran etexílat) þegar þörf er á hröðum viðsnúningi segavarnaráhrifa þess vegna neyðarskurðaðgerðar/áríðandi aðgerða eða vegna lífshættulegrar blæðingar eða blæðingar sem ekki næst stjórn á. Lyfið er undir sérstöku eftirliti (merkt svötum þríhyrning) til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf.

Questran, mixtúruduft, dreifa. Hver skammtapoki inniheldur 4 g af kólestýramíni. Hjálparefni með þekkta verkun er súkrósa. Lyfið er ætlað við óhóflegri blóðfituhækkun, niðurgangur af völdum gallsýru eftir að hluti dausgarnar hefur verið numinn brott  sem og við niðurgangi vegna aukins flæðis gallsýra í ristil. Lyfið er einnig ætlað sem kláðastillandi við gallrásarteppu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Reseligo, vefjalyf í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta inniheldur 3,6 mg eða 10,8 mg af goserelíni (sem góserelínasetat). Lyfið er ætlað til meðferðar við krabbameini í blöðruhálskirtli og brjóstakrabbameini hjá konum fyrir eða við tíðahvörf þegar hormónaviðtakar eru til staðar. Lyfið er lyfseðilsskylt og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum, þvagfæraskurðlækningum, innkirtlasjúkdómum og kvensjúkdómum.

Sjá lista

Til baka Senda grein