Fréttir

Yfirlæknir Lyfjastofnunar kjörinn varaformaður vinnuhóps Lyfjastofnunar Evrópu um vísindaráðgjöf

Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir Lyfjastofnunar hefur verið kjörinn annar af tveimur varaformönnum hóps Lyfjastofnunar Evrópu um vísindaráðgjöf.

26.5.2016

Fyrir skömmu fór fram kjör í hópa á fundi sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (Committe for Medicinal Products for Human Use, CHMP) þar sem Kolbeinn Guðmundsson, yfirlæknir Lyfjastofnunar, ásamt Peter Mol frá Hollandi voru kjörnir varaformenn (vice-chairs) vísindaráðgjafarhóps EMA (Scientific Advice Working Party, SAWP).

Vísindaráðgjafarhópur EMA kemur saman mánaðarlega í Lyfjastofnun Evrópu sem hefur aðsetur í London þar sem umsóknir frá einstaklingum, fyrirtækjum og háskólum um ráðgjöf um þróun nýrra lyfja eða meðferða eru metnar.

Hlutverk hópsins, sem samanstendur af fagfólki í tölfræði, læknisfræði, aðferðafræði, lyfjafræði og eiturefnafræði frá aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins er að veita ráðgjöf sem samræmist regluverki EMA. Hverju verkefni er deilt á tvö aðildarlönd sem gera síðan óháð mat á umsókninni hvort í sínu lagi.

 Á mánaðarlegum fundum hópsins eru verkefnin rædd í stærri hópi og sameiginleg álit gefin. Afgreiðslutími er almennt stuttur, um 1-2 mánuðir en stundum býðst umsækjanda að ræða verkefnið á fundi hjá EMA áður en endanleg niðurstaða fæst.

 Almennt er greitt fyrir þessa þjónustu en umsóknir um þróun meðferða við sjaldgæfum sjúkdómum með takmarkaða meðferðarmöguleika þar sem þörfin er mikil en markaðurinn lítill fá undanþágu frá greiðslu til að hvetja til þróunar á slíkum lyfjum.

Til baka Senda grein