Fréttir

Eru lyf sem seld eru án lyfseðils, í lausasölu, skaðlaus?

Í grein um lausaölulyf, sem birtist í Tímariti um lyfjafræði, 1. tbl. 2016, kemur fram að notkun bólgueyðandi lyfja við verkjum á Íslandi er meiri en í Danmörku og Noregi.

23.6.2016

Þó svo að sum lyf séu seld án lyfseðils  í lyfjabúðum má ekki líta á þau sem skaðlaus lyf. Öll lyf valda aukaverkunum og sum geta valdið alvarlegum eitrunum. Þetta á líka við um verkjalyf og bólgueyðandi lyf  sem seld eru án lyfseðils.
 
Notkun bólgueyðandi lyfsins íbúprófen er tvöfalt meiri hér á landi en í Danmörku og Noregi. Um það bil 80% af íbúprófen lyfjum sem seld eru hér á landi eru seld án lyfseðils. Þetta er verulega hærra hlutfall en t.d. í Danmörku.
 

Á árinu 2015 seldust yfir sjö milljónir dagsskammta af verkjalyfjum og bólgueyðandi lyfjum án lyfseðils sem jafngildir því að hvert íslenskt mannsbarn taki svona lyf í tæpan mánuð á ári.

Verkjalyfjum, sem fást án lyfseðils, er ætlað að stilla væga verki í skamman tíma. Standi verkir yfir í langan tíma þarf að leita til læknis.

Parasetamól er eiginlegt verkjalyf með verkun í taugakerfi en íbúprófen er bólgueyðandi lyf sem stillir aðeins verki sem stafa af bólgu. Bæði lyfin eru hitalækkandi og sá eiginleiki lyfjanna er oft notaður, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.

Bólgueyðandi lyf eru oft góð verkjalyf en valda oftar aukaverkunum og milliverkunum við önnur lyf en parasetamól. Gæta þarf varúðar við notkun íbúprófen lyfja hjá; þunguðum konum, þeim sem haldnir eru astma, eru með magasár, hjartasjúkdóm eða háan blóðþrýsting. Aldraðir ættu að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing áður en þeir nota þessi lyf.

Þegar verkjalyf er keypt í lyfjabúð án lyfseðils er mikilvægt að lesa fylgiseðil vel og nota ekki stærri skammta en ráðlagt er í honum. Sé einhver vafi er rétt að ráðfæra sig við lyfjafræðing eða lækni.

Sjá grein í Tímariti um lyfjafræði.

Til baka Senda grein