Fréttir

Til dýralækna: Alvarlegra aukaverkana orðið vart vegna notkunar Velactis í kúm

30.6.2016

Eftir að dýralyfið Velactis var sett á markað í Evrópu í mars á þessu ári hefur verið tilkynnt um margar alvarlegar aukaverkanir vegna notkunar lyfsins, þar á meðal hafa 16 kýr drepist. Þess vegna mun Lyfjastofnun Evrópu (EMA) nú meta lyfið á ný með tilliti til ávinnings og áhættu. Velactis hefur ekki verið notað á Íslandi.

Velactis inniheldur virka efnið cabergolin og er notað til þess að draga hratt úr mjólkurmyndun hjá mjólkurkúm og minnka mjólkurleka og hættu á júgurbólgu.

Velactis ekki selt á Íslandi

Velactis er miðlægt skráð lyf og hefur markaðsleyfi í öllum löndum EES þó það hafi ekki verið markaðsett í þeim öllum. Velactis hefur aldrei verið dreift hérlendis og það hefur ekki verið markaðsett á Íslandi. Framleiðandinn, CEVA, hefur staðfest að lyfið verði ekki selt á Íslandi né annars staðar í Evrópu fyrr en öryggi lyfsins hefur verið ákvarðað.

Notkun lyfsins Velactis hjá mjólkurkúm hefur ekki áhrif á menn.

Nýtt mat á Velactis með tilliti til ávinnings og áhættu

Auk dauða kúa í kjölfar notkunar á Velactis hefur verið tilkynnt um kýr sem ekki geta staðið eða staðið upp. Meðal annarra aukaverkana sem tilkynnt hefur verið um eftir notkun lyfsins eru lágur líkamshiti, blóðkalsíumlækkun, magakvillar, niðurgangur, útæðakvillar, slingur, þorstaleysi og skortur á tilætluðum áhrifum.

 

Verið er að rannsaka orsakatengsl notkunar lyfsins og ofangreindra tilvika. Sérfræðinganefnd EMA um dýralyf (CVMP) mun meta Velactis á ný með tilliti til ávinnings og áhættu á fundi sínum í júlí nk.

Notkun lyfsins bönnuð í Danmörku

Flestar aukaverkanatilkynningar vegna Velactis hafa komið frá Danmörku. Á meðan niðurstaðna rannsókna á orsakatengslum milli notkunar lyfsins og tilkynntra aukaverkana er beðið hefur danska lyfjastofnunin, Lægemiddelstyrelsen, bannað notkun lyfsins í Danmörku.

Til baka Senda grein