Fréttir

Ný lyf á markað 1.1.2008

3.1.2008

Fludent Banan 0,25 mg munnsogstöflur innihalda natríumflúoríð sem samsvarar 0,25 mg af flúori. Þær eru ætlaðar til notkunar við aukinni hættu á tannskemmdum og mikilli tannátuvirkni. Lyfið er fáanlegt án lyfseðils.

Folic Acid 5 mg töflur, innihalda fólínsýru en fólínsýra er eitt af B-vítamínunum og og er nauðsynlegt fyrir eðlilega myndun og þroska rauðra blóð­korna. Um er að ræða 28 stk. pakkningar en sú 5 mg fólinsýra sem þegar hefur markaðsleyfi hefur verið ófáanleg upp á síðkastið. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Rasilez filmuhúðaðar töflur innihalda virka efnið aliskiren sem er háþrýstingslyf af flokki renínhemla. Það er ætlað til meðferðar á háþrýstingi af óþekktum orsökum og má nota eitt sér eða ásamt öðrum blóðþrýstingslyfjum. Töflurnar er markaðssettar í tveimur styrkleikum, 150 mg og 300 mg. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Xerodent munnsogstöflur eru ætlaðar til meðhöndlunar einkenna vegna munnþurrks og fyrirbyggjandi við tannskemmdum hjá sjúklingum með munnþurrk. Hver tafla inniheldur 28,6 mg af eplasýru og natríumflúoríð sem samsvarar 0,25 mg af flúor. Flúor ver gegn tannskemmdum og eplasýra eykur framleiðslu munnvatns. Lyfið er fáanlegt án lyfseðils.

Ný lyfjaform á markað

Insúlínlyfin Apidra og Lantus eru nú markaðssett í nýrri gerð af áfylltum lyfjapenna, SoloStar. Apidra er fyrir á markaði sem OptiSet pennar og OptiClik rörlykjur. Virka efnið er glúlísíninsúlín. Lantus er fyrir á markaði sem OptiPen og OptiClik rörlykjur og OptiSet pennar. Virka efnið er glargíninsúlín.

Exelon er nú markaðssett sem forðaplástur í styrkleikunum 4,6 mg/24 klst. og 9,5 mg/24 klst. Lyfið var fyrir á markaði sem hylki í mismunandi styrkleikum og mixtúra. Það inniheldur rivastigmín. Plásturinn er ætlaður við einkennum vægs til í meðallagi alvarlegs Alzheimerssjúkdóms.

 

Ný dýralyf á markað

Convenia, stungulyfsstofn og leysir, lausn, 80 mg/ml er ætlað til meðferðar á ákveðnum bakteríusýkingum hjá hundum og köttum. Virka efnið er cefóvecín sem er sýklalyf af þriðju kynslóð cefalósporína. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein